Ísfell hættir starfsemi í Þorlákshöfn

Netaverkstæðið Ísfell í Þorlákshöfn mun hætta starfsemi í bæjarfélaginu á næstu mánuðum og starfsmönnum fyrirtækisins hefur verið sagt upp störfum. Þetta staðfestir Pétur Björnsson stjórnarformaður Ísfells við Hafnarfréttir.

Í fyrirtækinu starfa í dag þrír starfsmenn en einn þeirra hættir í lok þessa mánaðar fyrir aldurs sakir. „Það er hins vegar ekkert útséð með að þeir hætti alfarið hjá Ísfelli en þeir munu hætta á starfsstöðinni í Þorlákshöfn þar sem henni verður lokað nema eitthvað breytist verulega í umhverfinu,“ segir Pétur en Ísfell er með starfstöðvar víðs vegar um landið og sú stærsta er í Hafnarfirði.

Ísfell er eina netaverkstæðið í Þorlákshöfn en útgerðin í bæjarfélaginu hefur minnkað mjög mikið undanfarin ár og segir Pétur það ástæðu þess að fyrirtækið þurfi að skella í lás. „Útgerð frá Þorlákshöfn hefur dregist gríðarlega saman og nú er svo komið að einungis tveir stærri bátar eru eftir í viðskiptum við starfsstöðina í Þorlákshöfn.“ Þá segir hann jafnframt að lítið mál sé að sinna þeirri þjónustu áfram frá starfsstöð Ísfells í Hafnarfirði ef um það semst.

„Nákvæm tímasetning lokunar liggur ekki fyrir en það verður að öllu óbreyttu á næstu mánuðum,“ segir Pétur að lokum.