Leikreglurnar!

Gamall kunningi hafði samband við mig og bað mig að vera á framboðslista fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Þátttaka í pólitík og það í litlu samfélagi sem ég er nýfluttur í var sannarlega ekki markmið mitt þetta árið. Hins vegar, eftir að hafa fengið upplýsingar um hverjir væru mögulega á framboðslistanum og hver markmiðin og stefnan væri, þá kom ekkert annað til greina en að vera bara montinn af því að fá að vera með.

Alla daga vinn ég fyrir aðila í framkvæmdum. Fólk sem oft á tíðum er búið að leggja allt sitt undir viðkomandi framkvæmd. Ég starfa eftir þeirri einföldu reglu að setja mig í þeirra spor, rétt eins og ég sé að ráðstafa mínum eigin fjármunum, með ráðdeild og hagsýni að leiðarljósi. Þeir sem starfa í sveitarstjórnum eiga að hugsa eins. Við eigum að geta treyst því að kjörnir fulltrúar ráðstafi úr sameiginlegum sjóðum, rétt eins og þeir séu að ráðstafa eigin fjármunum og þeir geri það líka eftir þeim leikreglum sem gilda um opinber innkaup. Því að starfa fyrir sveitarfélag er að nokkru leyti ólíkt því að starfa fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Sveitarfélög teljast opinberir aðilar í skilningi laga og ber þeim því að haga kaupum á þjónustu og verkum í samræmi við lög um opinber innkaup. Það þýðir að öll innkaup á vörum, þjónustu og verkum yfir ákveðnum viðmiðunarfjárhæðum skal bjóða út. Það útboðsferli skal gert eftir ákveðnu formi á ákveðinn hátt. Ekki bara “fá tilboð”.

Hvernig hefur þessum málum verið háttað á undanförnum árum hjá sveitarfélaginu okkar? Kann að vera að þessi skylda hafi gleymst? Hver er innkaupastefna sveitarfélagsins?

Útboð eru viðurkennd aðferð til að ná hagkvæmustu verðum hverju sinni og opinberir aðilar nýta þau í öllum stærri innkaupum til að tryggja ráðdeild og hagræðingu í sínum rekstri. Gilda ekki sömu lögmál í okkar sveitarfélagi?

Við á D-listanum í Ölfusi viljum að farið sé að lögum um opinber innkaup, að innkaupastefna sveitarfélagsins sé skýr og gagnsæ og að íbúar geti treyst því að þessum leikreglum sé fylgt.

Eiríkur Vignir
skipar 7. sæti D-listans í Ölfusi