Höldum áfram að sækja upp völlinn

Við sem sveitafélag þurfum að hugsa til sóknar upp völlinn ekki ólíkt og í boltanum. Ef að gengur illa að sækja upp miðjuna þarf að huga að því að sækja upp vinstri eða hægri kantinn, beita skyndisóknum eða öðrum aðferðum til þess að reyna að skora. Vörnin er alltaf sterkasta vopnið í hverju liði og má horfa á grunnstoðir samfélagsins sem varnarmenn. Skóla- og velferðarmálin þurfa að vera til fyrirmyndar og getum við verið stolt af því starfi sem þar fer fram en við þurfum ávallt að vera á verði til að viðhalda sterkri vörn og gera enn betur. Það gerum við með vel menntuðu og hæfu starfsfólki því að mannauðurinn í bænum okkar er dýrmætur og mikilvægt að hlúa að samfélaginu.

Á þessum nær 30 árum sem ég hef alist upp hér í Þorlákshöfn hafa breytingar á sveitarfélaginu orðið gríðarlegar í ekki eldra sveitarfélagi. Mér finnst eins og það hafi verið í gær þegar ég kom heim með mömmu og pabba, í gegnum gömlu innkeyrsluna frá einhverju útlandinu, inn í „fiskifýluna“, og ritað í blómaskreyttan hól stóð 50 ára. Þegar ég hugsa til þessa, í ljósi komandi kosninga, áttar maður sig á því hve ungt sveitarfélagið okkar er og hve öflug uppbygging hefur verið á stuttum tíma.

Íþrótta- og útivistarsvæði bæjarins er orðið glæsilegt og höfum við fengið margar rósir í hnappagatið frá gestum sem hafa heimsótt bæinn. Íþróttasvæðin hafa verið mitt athafnasvæði í gegnum árin og á síðastliðnum 30 árum erum við komin í fremstu röð sveitarfélaga. Íþróttamiðstöðin er fjölsóttasti ferðamannastaðurinn okkar í dag enda aðstaðan til fyrirmyndar og um leið hefur íþróttalífið eflst mjög. Í dag erum við með íþróttafólk í fremstu röð og má segja að íþróttafólkið okkar hafi komið okkur „á kortið“. Þúsundir koma í bæinn okkar til að fara á viðburði tengda íþróttum og er klárlega sóknarfæri til að gera enn betur.

Ég hef horft á uppbyggingu nýs hverfis sunnan við bæinn en þegar ég hjólaði á fótboltaæfingar fannst mér ég vera að hjóla út í sveit til að fara á vellina. Ný innkeyrsla inn í bæinn, fallegur skrúðgarður og heilsustígur með bekkjum og tækjum er eitt af þeim fjölmörgu verkefnum sem má nefna í fegrunaraðgerðum bæjarins. Framtíð okkar byggir á „grænum“ áherslum og verður spennandi að taka þátt í landgræðsluverkefninu, Þorláksskógar, á sandinum til að bæta búsetuskilyrði okkar enn frekar og hefta sandfok. Enn finnst mér eins og í gær hafi maður setið aftur í bíl á leið heim, horft á sandinn sem stóð upp eins og öldur í hafi á Þorlákshafnarvegi og heyrt sandinn berja bílinn í rokinu.

Sveitarfélagið okkar stendur á tímamótum og þurfum við að finna ný sóknarfæri. Á mínum yngri árum var bærinn sjávarútvegsbær með mörg fyrirtæki í vinnslu á fiski og bátum í höfn. Á undanförnum árum hefur breytt rekstrarumhverfi haft áhrif á lífleg hafnarsvæði víða um land og hefur okkar sveitarfélag fundið fyrir því. Við gerðum vel með því að blása lífi í hafnarlífið og opna fyrir nýja flutningsæð. Við feðgar förum vikulega niður á höfn að skoða stóra skipið, eða eins og minn tveggja ára drengur segir „stór bátur mominn“. Við þurfum að horfa til framtíðar og byggja upp ný sóknarfæri í tengslum við höfnina. Tækifærin er mörg og þurfum við að vera vakandi fyrir nýjum leiðum og vera jákvæð.

Fólkið sem er á framboðslistunum tveimur er gott fólk sem vill okkar sveitarfélagi vel á öllum vígstöðum.  Við kjósendur þurfum að velja hverjum við treystum best til að halda áfram að gera samfélagið okkar enn betra.

Leiðarljós okkar allra eftir kosningar er að stilla upp sóknarlínu sem við treystum best til að leiða okkur liðsmenn sveitarfélagsins. Góð sókn styrkir góða vörn

Við í X-O listanum erum tilbúin að sækja með krafti fram og vinna að eljusemi í komandi verkefnum.

Hjörtur S. Ragnarsson
Skipar 7. sæti á lista Framfarasinna og félagshyggjufólks í Ölfusi, XO