Enn um leikreglurnar

Vegna athugasemda sem birtust í dag í grein Sveins Steinarssonar og Önnu Bjargar Níelsdóttur frambjóðenda X-O skal því haldið til haga að rangar tilvísanir í lög og viðmiðunarfjárhæðir voru leiðréttar á vefnum samdægurs, og skrifleg leiðrétting með nánari útskýringum. Mögulega fór það fram hjá greinarhöfundum.

Þá var því aldrei haldið fram að starfsmenn bæjarfélagsins eða bæjarfulltrúar hafi brotið lög, rétt eins og ítrekað var í skýringum sem birtust í gær, 20. maí. Hitt er annað mál að eðlilega fara starfsmenn bæjarins aðeins að lágmarkskröfum laga, nema kjörnir fulltrúar taki ákvarðanir um að betur skuli gera.

Eins er rétt að árétta að bæjarfélaginu ber að fara að lögum um innkaup, jafnvel þó svo að innlendu viðmiðunarfjárhæðirnar taki ekki gildi fyrr en 2019. Þannig ber sveitarfélaginu t.d. að auglýsa þessi verk, sbr. 5. mgr. 123. gr. laganna. Áhugavert væri að heyra hvernig staðið hefur verið að þeim auglýsingum, m.a. í ljósi þess að erfiðlega gengur að finna slíkar auglýsingar á leitarvélum veraldarvefsins.

Loks skiptir hér máli að þrátt fyrir að ítrasta lagaskylda leggi ekki endilega þær skyldur á sveitarfélagið að bjóða út verk yfir innlendum viðmiðunarfjárhæðum, þá er sveitarfélaginu að sjálfsögðu heimilt gera betur, en bara að uppfylla lágmarksskilyrði laganna. Það gera einmitt flest sveitarfélög í landinu, en þau hafa flest, og allir okkar næstu nágrannar, sett sér sérstakar innkaupareglur sem þeim ber að fara eftir. Þannig bjóða Hvergerðingar út verk yfir 12 milljónum króna, Árborgarfólk út verk yfir 28 milljónum króna og Grindvíkingar verk yfir 15 milljónum króna. Í því samhengi skýtur skökku við að við hér þurfum að bjóða út verk yfir 721 milljónum króna.

Hörmum við það ef einhver hefur tekið orðum okkar svo að frambjóðendur okkar teldu að starfsfólk bæjarins ynnu verk sín öðruvísi en af heilindum og heiðarleika. Okkar markmið er hins vegar að skapa þær ytri aðstæður og þá umgjörð að íbúar sjái á gegnsæjan hátt að vinnulag í sveitarfélaginu sé hafið yfir allan vafa. Ein leið til þess er m.a. setning innkaupareglna fyrir sveitarfélagið.

Virðingarfyllst,
Frambjóðendur D-listans í Ölfusi