Að gefnu tilefni um bætt vinnubrögð

Grein frá bæjarfulltrúunum Sveini Steinarssyni og Önnu Björgu Nielsdóttur.

Það að boða aukið gagnsæi, bætt vinnubrögð og það að öll framsetning mála sé með skýrum hætti krefst á móti vandaðs málflutnings og heiðarleika.

Ekki er hægt að segja að dylgjur í skrifum um það að kjörnir bæjarfulltrúar og starfsfólk Sveitarfélagsins Ölfuss ástundi óheiðarleg vinnubrögð og jafnvel lögbrot í sínum störfum, án nokkurs rökstuðnings, séu góð fyrirheit um bætt vinnubrögð. Það er ekki boðlegt að frambjóðendur skuli opinberlega birta texta með þessum hætti um það fólk sem þeir hafa hug á að starfa með næstu árin. Að gefnu tilefni þá hafa langflestar ákvarðanir um framkvæmdir og aðferðir verið teknar af öllum kjörnum bæjarfulltrúm ekki einvörðungu af meirihluta eins og að er látið liggja í skrifum núverandi frambjóðenda D listans.

Það er auðvitað þannig í aðdraganda kosninga að áhugasamir frambjóðendur fara yfir allt það helsta sem varðar framkvæmdir, rekstur og áherslur sveitarfélaga og er það ofureðlilegt. Í þeirri vegferð er mikilvægt að vanda sig en mjög auðvelt er að afvegaleiða umræðu um ýmis mál eins og dæmi er um síðustu daga en nokkur umræða hefur verið um framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins.

Því verður að segja að það er í fyrsta lagi sanngjörn og eðlileg krafa að frambjóðendur fari rétt með þegar t.a.m. er vísað í lög. Rangt er t.d. að skilyrðislaust skuli bjóða út kaup sveitarfélaga á vörum sem kosta 5 m.kr. og þjónustu og verkkaupum sem kosta 10 m.kr. Meginreglan samkvæmt 23. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er að opinberir aðilar eiga að bjóða út kaup á vörum og þjónustu yfir 15,5 m.kr. og verk yfir 49 m.kr. Sveitarfélög eru hins vegar ekki bundin af þessum viðmiðunarfjárhæðum fyrr en eftir 31. maí 2019. Sveitarfélögum ber að fara eftir öðrum og miklu hærri viðmiðunarfjárhæðum. Samkvæmt reglugerð nr. 178/2018 er sveitarfélögum aðeins skylt að bjóða út vöru- og þjónustusamninga sem eru yfir 28.752.100 kr. og verksamninga sem eru umfram 721.794.800 kr. Ef innkaup sveitarfélaga ná ekki þessum viðmiðunarfjárhæðum gilda lög um opinber innkaup ekki um þau.

Vissulega eru útboð vel til þess fallin að stuðla að hagkvæmni, jafnræði og samkeppni þegar um innkaup sveitarfélaga er að ræða sem ná talsverðum fjárhæðum. Forsvarsmenn sveitarfélagsins Ölfuss hafa af heilindum hagað innkaupum sveitarfélagsins með hagkvæmasta hætti á hverjum tíma og alla jafna hafa verk verið boðin út þrátt fyrir að vera langt undir viðmiðunarfjárhæðum.

Engin ástæða er til þess fyrir íbúa Ölfuss að efast um heilindi og heiðarleika kjörinna bæjarfulltrúa og starfsmanna sveitarfélagsins.

Góður rekstur og góð fjárhagsstaða sveitarfélagsins er til vitnis um það að vel hafi verið staðið að málum undanfarið kjötrímabili. Að endingu viljum við þakka íbúum fyrir það traust sem okkur hefur sýnt síðustu átta ár og vonum að íbúar setji áfram traust sitt á okkur og okkar félaga í framboði Framfarasinna og félagshyggjufólks.

Með góðri kveðju,
Anna Björg Níelsdóttir og Sveinn Steinarsson