Grilla 1.000 hamborgara og borða 50 kíló af humri í Þorlákshöfn

Jón Páll stendur sig vel á grillinu eins og allir aðrir sjálfboðaliðar mótsins. Mynd: UMFÍ

Sjálfboðaliðar frá Ungmennafélaginu Þór og knattspyrnufélaginu Ægi hafa grillað hátt í 1.000 hamborgara og útbúið 50 kíló af humarpylsum á Unglingalandsmóti UMFÍ í Þorlákshöfn yfir helgina í bænum. Á bilinu fimm til átta þúsund manns eru í Þorlákshöfn nú um verslunarmannahelgina á meðan Unglingalandsmót UMFÍ stendur yfir. UMFÍ greinir frá.

Ragnheiður Hannesdóttir sem sér um innkaupin á borgurum og humar og öllu tilheyrandi segir þetta aðeins umfram áætlanir og söluna gengið mjög vel.

Fólk beið jafnan í löngum röðum eftir að fá sér gott í gogginn. Þegar sól skein sem hæst var röðin eftir hamborgara og með því 15-20 metra löng.

Ragnheiður segir humslur vinsælar á helstu viðburðum í Þorlákshöfn og rjúki bæjarbúar ævinlega til þegar boðið er upp á þær. Humarpylsurnar eru kallaðar humslur og eru humar í pylsubrauði með hvítlaukssósu og þykir algjört góðgæti.