Engin ákvörðun hefur verið tekin um urðunarstað á Nessandi

Í gær fór fram borgarafundur um mögulegan urðunarstað á Nessandi. Fundurinn var vel sóttur en þar voru saman komnir milli 50-60 gestir auk framsögumanna. Fundurinn var jafnframt sendur út í gegnum Facebooksíðu sveitarfélagsins og fylgdust hátt í 800 manns með fundinum í gegnum þann vettvang. Óhætt er að segja að töluð hafi verið hrein íslenska þegar fram fór opinská umræða að loknum inngangserindum.

Enn er málið á byrjunarstigi og ekki hefur nein ákvörðun verið tekin um staðsetningu urðunarstaðar á Nessandi og mikilvægt að fara varlega þegar ákvarðanir um staðsetningu eru teknar. Þetta kom fram í máli Gests Kristjánssonar forseta bæjarstjórnar á fundinum. Auk þess lagði Gestur mikla áherslu á að málið verði á öllum tímum unnið af gagnsæi og áhersla lögð á upplýsingar til bæjarbúa.

Á fundinum fór Jón Valgeirsson, formaður Sorpstöðvar Suðurlands, ásamt sérfræðingum frá Eflu og Mannvit yfir forsögu málsins og kynntu þau þá hugmynd sem er í vinnslu. Um er að ræða svæði sem er rúmum 8 km frá Þorlákshöfn og er gert ráð fyrir að urðunarsvæðið sjálft verði um 8 ha, en það er u.þ.b. tvöfalt planið sem verið er að útbúa fyrir Smyril line fyrir utan Þorlákshöfn.

Á svæðinu yrði urðaður óvirkur úrgangur og að sögn forsvarsmanna verkefnisins er ekki um neinn lífrænan úrgang að ræða og því mun engin lyktamengun vera frá svæðinu og það mun ekki laða að sér meindýr. Ef af verkefninu verður þá verður eftirlit með móttöku úrgangs og krafa verður um góðan frágang til að koma í veg fyrir fok. Í kynningu á verkefninu kom einnig fram að „útskolun efna úr úrgangi verður óveruleg (engin).“

Jón Valgeirsson útskýrði að sorpmál á Suðurlandi væru í slæmum málum þar sem ekki hefur fundist viðunandi lausn eftir að Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi var lokað árið 2009 og að nauðsynlegt væri að finna lausnir sem fyrst. Í dag er öllu sorpinu keyrt til Reykjavíkur en samningar við SORPU renna út um mánaðamótin. Sorpstöð Suðurlands hefur sent sveitarfélaginu formlegt erindi þar sem óskað er eftir því að svæðið verði rannsakað frekar til að athuga hvort Nessandur sé ákjósanlegur kostur.

Þorsteinn Guðnason, sem er í forsvari fyrir tvö fyrirtæki sem eiga hagsmuna að gæta á svæðinu, mótmælti harðlega þessari hugmynd en þessi fyrirtæki eiga landið Nes og fasteignir við höfnina. Keyptu þau jörðina fyrst og fremst út af vatninu, til að færa heiminum ferskt lindavatn á hagstæðu verði, og hafa þau gert samninga við erlenda aðila um kaup á vatni og mun því urðunarsvæði á Nessandi hafa töluverð áhrif á þau áform.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss, sagðist ekki geta sagt á þessari stundu hver sín afstaða væri en að hann væri mjög skeptískur og að ef atkvæða greiðsla væri núna þá myndi hann segja nei, þar sem óvissan er svo mikil.

„Við búum við alveg einstakar aðstæður til vaxtar. Við erum með þessa gríðarlega góðu höfn sem er vaxandi útflutningshöfn og með alþjóðaflugvöll í bakgarðinum. Við erum með stærsta orkusvæði á Íslandi og næst stærsta jarðorkusvæði í heimi, svo erum við með allt þetta ferska vatn og 30 mínútna fjarlægð frá helsta vaxtarsvæði á landinu sem er höfuðborgarsvæðið. Þegar allt þetta kemur saman þá skapar það þessu svæði alveg gríðarleg tækifæri. Það er ekki bara eðlilegt heldur er það skylda íbúa að fara mjög varlega þegar kemur að málum eins og sorpmálum,“ sagði Elliði

Taldi hann að það að urða sorp á þessu svæði myndi breyta talsvert miklu ásýnd svæðisins. Sagðist hann hafa átt samtal við kjörna fulltrúa og að þeir væru allir sammála um að stíga varlega til jarðar. Byrja á því að kynna þetta fyrir íbúum, eiga samtal þar að lútandi og rasa ekki um ráð fram.

Hér er hægt að nálgast upptöku frá fundinum: