Jákvæður rekstur hjá Golfklúbbi Þorlákshafnar

Friðrik Guðmundsson (t.h.) var gerður að heiðursfélaga fyrir framlag sitt til golfklúbbsins.

Jákvæður rekstur var hjá Golfklúbbi Þorlákshafnar á síðasta ári. Aðsókn kylfinga á golfvöllinn jókst um 25% frá fyrra ári, þrátt fyrir talsverða ótíð hluta sumars. Þá skilaði klúbburinn jákvæðri rekstrarafkomu fyrir starfsárið 2018.

Talsverðar framkvæmdir voru á vellinum sl. ár, búið að taka tvær nýjar brautir í notkun og unnið að undirbúningi vegna tveggja annara brauta sem vonast er til að verði tilbúnar síðsumars 2019. Þessar breytingar koma einkum til vegna ágangs sjávar og sandfoks, en þær brautir sem hafa verið teknar úr notkun liggja næst sjávarkambinum. Starfsmenn og félagar klúbbsins hafa unnið mikið starf vegna þessara breytinga ásamt því að Sveitarfélagið Ölfus hefur staðið vel við bakið á klúbbnum við þessar framkvæmdir.

Eins og fyrr segir jukust heimsóknir á völlinn verulega og má þær einkum rekja til þess að völlurinn er sífellt að verða vinsælli á meðal kylfinga og eins er hægt að leika á honum lengur en á öðrum golfvöllum. Ekki skemmir heldur fyrir að golfvöllurinn þykir einstaklega vel hirtur og flatirnar eru með þeim allra bestu á Íslandi.

Klúbburinn skilaði rúmlega 1200 þúsund króna hagnaði á síðasta ári þrátt fyrir mjög hóflegt ársgjald og flatargjald, því lægsta sem fyrirfinnst á 18 holu golfvöllum á Íslandi.

Félagar golfklúbbsins í dag eru 280 og hefur þeim fækkað örlítið frá fyrra ári. Barna- og unglingastarf klúbbsins var mjög öflugt og sóttu 46 börn og unglingar á aldrinum 5 til 16 ára golfnámskeið síðasta sumar. Vonast er til að þar fari framtíðarkylfingar klúbbsins.

Annar þáttur sem tókst einnig mjög vel var kvennastarfið, en konurnar voru með fastan tíma einu sinni í viku. Fjölmörg mót voru haldin á vegum klúbbsins og tókust þau yfirleitt mjög vel.

Það sem stendur klúbbnum einkum fyrir þrifum er bágur húsakostur. Golfskálinn er engan veginn í takt við þær kröfur sem gerðar eru til slíkra bygginga í dag. Ekki er hægt að halda stór og fjölmenn golfmót á meðan núverandi skáli er í notkun. Ekki er að efa að klúbburinn fengi fjölmörg slík mót með bættri aðstöðu, enda einn af bestu golfvöllum landsins.

Á aðalfundinum sem haldinn var í Golfskálanum 22. janúar s.l. var Friðrik Guðmundsson gerður að heiðursfélaga fyrir framlag sitt til golfklúbbsins. Aðalfundargestir virtust vera mjög ánægðir með starfsemi klúbbsins sem sést best á því að öll stjórn klúbbsins var endurkjörin.

Guðmundur Baldursson
Formaður Golfklúbbs Þorlákshafnar