Jónas Sig með nýtt tónlistarmyndband, tekið upp í Þorlákskirkju

Jónas „okkar“ Sigurðsson birti í dag nýtt tónlistarmyndband sem Alda Music gaf út. Um er að ræða þriðja tónlistarmyndbandið með lögum af nýju plötunni, Milda hjartað, sem kom út í lok síðasta árs.

Lagið heitir Núna og segir Jónas lagið vera eitt af uppáhaldslögunum af plötunni. Söngur um tíma, nánd og hvernig núið verður undurfljótt aðeins minning þess sem var.

Tónlistarmyndbandið er tekið upp í Þorlákskirkju en það er ekki í fyrsta sinn sem Jónas nýtir okkar fallegu kirkju í sinni sköpun, en þar var meðal annars Lúðrasveit Þorlákshafnar tekin upp fyrir plötuna Þar sem himin ber við haf sem kom út árið 2012.

Á ferðinni um páskana

Um helgina verður Jónas ásamt hljómsveit sinni fyrir vestan þar sem þeir munu spila á Vagninum á Flateyri á föstudagskvöldinu og á Aldrei fór ég suður á laugardagskvöldinu, sem verður einmitt í beinni útsendingu á RÚV2 og geta áhugasamir fylgst með þar.

Nýja tónlistarmyndbandið við lagið Núna

Hér fyrir neðan má sjá hin tvö tónlistarmyndböndin með lögum af nýju plötunni, Milda hjartað. Annað þeirra er einmitt tekið upp út á bjargi og svo er von á fjórða myndbandinu innan skamms sem var tekið upp í Skötubótinni.

Tónlistarmyndband við lagið Dansiði, sem tekið var upp út á bjargi
Tónlistarmyndband við titil lag nýju plötunnar, Milda hjartað
Hér er hægt að hlusta á plötuna Milda hjartað í heild sinni