Elliði Vignisson, bæjarstjóri í ríki hamingjunnar, er fimmtugur í dag. Að því tilefni heyrðum við í Elliða og spurðum hann út í stóru málin.
Í október árið 2018 var Elliði í viðtali við Hafnarfréttir þar sem hann var spurður út í hvaða húðkrem hann notaði. Hann svaraði því til að hann notaði nú ekki húðkrem en að hann myndi byrja á því þegar hann yrði fimmtugur. Nú er svo komið og því spurðum við hann hvort hann væri búinn að ákveða hvaða tegund hann ætlar að nota.
Það er nú svo magnað að sú litla þörf sem verið hefur fyrir húðkrem hingað til hefur með öllu horfið eftir að ég flutti hingað í hamingjuna. Mig grunar að ástæðan sé ekki hvað síst sú að íbúar hér eru einhvernvegin þeim töfrum gæddir að samvera með þeim virkar sem yngingarlyf. Þar við bætist svo þetta magnaða umhverfi sem hér í boði fyrir þá sem vilja njóta. Ég hef því slegið öllum áformum um andlitskrem á frest þar til ég verð níræður.
Við hjá Hafnarfréttum óskum Elliða innilega til hamingju með fimmtugsafmælið og vonum að hann eigi góðan dag í ríki hamingjunnar.