Elliði tekinn á beinið – fyrsti hluti

Í ágúst kynntum við nýjan lið hjá okkur sem við kölluðum „Nýr bæjarstjóri tekinn á beinið“ þar sem við buðum íbúum að senda inn spurningar til Elliða Vignissonar. Fáar spurningar bárust í byrjun en nú erum við búin að taka þær saman og munum birta á næstu vikum. Hér koma fyrstu 3 spurningarnar ásamt svörum frá Elliða.

Hvers vegna ákvaðstu að sækja um í Ölfusi?

Af því að mér finnst þetta svæði og samfélagsgerðin heillandi.  Hér hefur verið vel að verki staðið seinustu ár og samfélagið tilbúið til að taka skref til móts við nýja tíma.  Hér í hinu öfluga Ölfusi er ein besta útflutningshöfn landsins, nálægð við alþjóðaflugvöll, stærsta orkusvæði landsins, stærstu ferskvatnslindir landsins, endalaust landsvæði og nálægð við höfuðborgarsvæðið.  Þessu fylgja tækifæri sem vart eiga sér hliðstæðu.  Mér finnst líka spennandi hvað Ölfusinu og þá ekki síst Þorlákshöfn hefur tekist að vernda stöðu sína sem sterkt menningar- og atvinnusvæði með öfluga innrigerð en ekki sætt sig við að verða svefnbær eða úthverfi Reykjavíkur.  Ég trúi því af einlægni að við eigum enn mikið inni hvað varðar bæði atvinnuuppbyggingu og áframhaldandi þróun samfélagsins.

Stefnir þú á að bjóða þig fram til Alþingis eftir 3 ár?

Af einhverju ástæðum sem mér eru framandi hefur hefur nafn mitt loðað við þingframboð seinustu 14 árin.  Metnaður minn hefur ekki legið í þá áttina enda hefur mér liðið afar vel í sveitastjórnarmálum.  Ég lít ekki á það sem skref upp á við þegar bæjarstjórar eða sveitastjórnarfólk skiptir um vettvang og fer yfir á alþingi.  Það er í besta falli hliðarskref enda þessi tvö stjórnsýslustig -alþingi og sveitarstjórn- jafn gild skv. stjórnarskránni.  Ég ber mikla virðingu fyrir þeirri stöðu sem ég gegni sem bæjarstjóri í Ölfusinu og þykir hún langtum stærri en ég þessi litla persóna sem gegni stöðunni tímabundið.  Minn vilji nú er að standa mig eins vel og ég get fyrir þetta samfélag sem er mér nú þegar orðið afar kært.  Hvað síðar gerist veit ég ekki en í dag er það ekki áætlun mín að bjóða mig fram til Alþingis, hvorki eftir 3 ár né 30.

Nú ert þú næstum því að verða fimmtugur. Hvaða húðkrem notar þú eiginlega gamli?

Þetta er náttúrulega ekki rétt.  Enn er ég bara fjörtíu og eitthvað.  Ég nota því ekki húðkrem en þegar ég verð fimmtugur verð ég sjálfsagt að byrja á því.