Hugleiðingar eftir hreinsunarátak

Hrafnhildur og Brynja, skipuleggjendur hreinsunarátaksins Hreinsum Ölfus eru hér með hugleiðingar í kjölfar átaksins sem lesendur eru hvattir til að lesa. Það eru tímamót í heiminum öllum þegar kemur að umhverfismálum og ljóst að við þurfum öll að hjálpast að til að snúa við hrikalegri þróun í loftslagsmálum.

Um helgina fór fram hreinsunarátak í Ölfusi annað árið í röð. Fjöldi fólks tók þátt í átakinu og hreinsaði hátt í 50 fulla ruslapoka af rusli úr umhverfi Þorlákshafnar auk ýmiss annars drasl sem ekki átti erindi í náttúrunni. Þessi hópur fólks á risastórt hrós skilið fyrir að gefa sér tíma til að láta sig umhverfið varða og fyrir taka málin í sínar hendur í stað þess að bíða eftir að einhver annar geri það.

Við þetta tilefni er þó alveg ástæða til að staldra við og velta því fyrir sér hvort að það sé eða eigi að teljast eðlilegur partur af samfélagi fólks að umhverfi þess yfirfyllist síendurtekið af rusli og drasli. Stór hluti þess rusl sem fýkur frá heimilum og/eða fyrirtækjum fýkur á haf út en aðeins hluti þess stoppar í runnum og móum en það er sá hluti sem hópur íbúa í Ölfusi hreinsaði upp úr nærumhverfi sínu um liðna helgi, um 50 ruslapokar. Þá er ótalið allt það rusl sem fýkur lengra út fyrir bæjarmörkin og verður eflaust aldrei hreinsað.

,,Það þarf t.d ekki að spyrja að því hvar þetta rusl endar í næstu lægð. En hver ætlar að hreinsa það upp?“

Ýmislegt bendir til þess að stór hluti þess rusls sem hreinsað var upp um helgina eigi uppruna sinn frá fyrirtækjum í bæjarfélaginu, en athygli vakti að í móanum við enda bæjarins var að finna tugi af einnota kaffimálum, sælgætisbréfum, ísboxum og gosflöskum. Það tók nokkrar manneskjur marga klukkutíma að hreinsa upp það rusl sem lá í móanum sem liggur aftan við nokkur fyrirtæki og helstu verslanir bæjarins. Samt hafði þetta sama svæði verið hreinsað fyrir ári síðan. Þetta þarf þó ekki að koma á óvart, enda er það alltof algeng sjón að ruslafötur við verslanir og stofnanir í bænum séu opnar fyrir veðri og vindum og alltof of oft eru þær yfirfullar. Það má alveg spyrja sig hvort þessar hefðbundnu ruslafötur henti yfir höfuð fyrir íslenskar aðstæður og hvort fyrirtækin og sveitarfélagið þurfi ekki alvarlega að íhuga að skipta þeim út fyrir hentugri ruslafötur. Það þarf t.d ekki að spyrja að því hvar þetta rusl endar í næstu lægð. En hver ætlar að hreinsa það upp?

,,Stór hluti þess rusl sem fýkur frá heimilum og/eða fyrirtækjum fýkur á haf út en aðeins hluti þess stoppar í runnum og móum“

Fyrir nokkru síðan hóf sveitarfélagið að skikka íbúa til að flokka heimilissorp, sem ber vissulega að fagna enda er það gott fyrir okkur öll að horfast í augu við það sorp sem neysla okkar leiðir af sér auk þess sem urðun sorps þarf að takmarka til hins ítrasta. Hinsvegar hefur borið þó nokkuð á því að flokkunartunnur opnist auðveldlega og/eða fjúki á hliðina og tæmist út í náttúruna í vetrarlægðunum, enda eru tunnurnar sérstaklega léttar. Hefðbundið heimilissorp var ekki síður stór hluti þess rusl sem hreinsað var upp úr runnum í bænum, úr fjörunni og úr móunum í kringum bæinn um helgina. Sem dæmi má nefna hakkbakka, þvottaefnisbrúsa, sápubrúsa, jarðarberjabox, brauðpoka, einnota burðarpoka ofl ofl.  Einnig lá óteljandi magn af eyrnapinnaplasti í fjörunni sem hefur skolast þar á land eftir ferðalag í gegnum skólplagnir Þorlákshafnar (vinsamlegast ekki henda eyrnapinnum í klósettið).

En hver ber ábyrgð?

Plokk og árleg hreinsunarátök eru samfélagslega og umhverfislega mikilvæg en geta þó seint talist varanleg lausn á þeim vanda sem við er að etja heldur þarf hér að ráðast að rót vandans.  

Rót vandans liggur vissulega dýpra en marga grunar og það getur verið erfitt að uppræta rótina fullkomlega, enda þyrfti stórfellda breytingu á neysluhegðun samfélaga og mjög víðtæka viðhorfsbreytingu til að ná því markmiði. Við skulum því einbeita okkur að því sem við eigum auðveldara með að ná utan um og getum gert strax.

Í kjölfar þessa hreinsunarátaks er vert að skora á íbúa sveitarfélagsins, eigendur fyrirtækja og sveitarfélagið Ölfus til að horfa í spegil og velta fyrir sér í sameiningu hvort það eigi að teljast eðlilegt að mörg tonn af rusli fjúki út í náttúruna frá íbúum og fyrirtækjum um ókomna tíð eða hvort tími sé kominn til að bretta upp ermar og breyta hlutunum til hins betra. Sé niðurstaðan sú að þetta sé ekki, eða eigi ekki lengur að teljast eðlilegt, þá verður að ráðast í einhverskonar breytingar eins fljótt og auðið er. Þó að hópur íbúa í Ölfusi hafi sýnt ótrúlegan dugnað og samstarfsvilja um liðna helgi er ekki þar með sagt að hægt verði að virkja þau aftur ár eftir ár ef ekki er sýnd viðleitni til að ráðast að rót vandans af hálfu íbúa, fyrirtækja og sveitarfélagsins. Það er óneitanlega óþægileg tilfinning eftir alla þessa vinnu sem liggur að baki hreinsunarstarfinu, að koma næsta dag að yfirfullum ruslatunnum og opnum flokkunartunnum sem bíða eftir að spúa rusli í allar áttir í næstu vindhviðu, slíkt er of algeng sjón.

50 ruslapokar fullir af sorpi sem íbúar plokkuðu úr náttúrunni í og við Þorlákshöfn

Með þessum hugleiðingum vonumst við til að umræða skapist um mögulegar lausnir á vandamálinu. Við vonum að fyrirtæki fái ekki lengur að komast upp með að bera ekki ábyrgð á ruslinu sem fýkur frá þeim. Við vonum að íbúar noti minna plast, kaupi minni óþarfa og tryggi að frágangur sorpsins sé með þeim hætti að ekki sé hætt við að fötur opnist og tæmist í næstu lægð. Við vonum að Ölfus verði fyrirmynd annarra sveitarfélaga sem glíma við samskonar vandamál og verði í forystu þegar kemur að innleiðingu lausna í umhverfismálum. Síðast en ekki síst, þá vonum við að ekki þurfi að ræsa út tugi íbúa til að hreinsa upp mörg tonn af rusli úr náttúrinni að ári liðnu.

Kveðja Hrafnhildur og Brynja, skipuleggjendur hreinsunarátaksins Hreinsum Ölfus.