Í morgun skrifuðu þeir Elliði Vignisson bæjarstjóri og Ingólfur Snorrason einn eiganda Landeldis ehf. undir nýjan leigusamning sem kveður á um úthlutun þriggja lóða við Laxabraut þar sem fyrirtækið hyggst koma upp einu stærsta landeldi á Íslandi.
Fyrirtækið hafði áður haft hug á framkvæmdum á lóðinni Laxabraut 1 en með hinu nýja samkomulagi stefnir það að því að koma upp aðstöðu á Laxabraut 21, 23 og 25. Um er að ræða rúmlega 183 þúsund fermetra lóð og er áformað að verklegar framkvæmdir hefjist eigi síðar en vorið 2020. Hinn nýi samningur gerir því ráð fyrir mikið stærri lóð en áður var og er án efa til marks um trú fjárfesta á framtíð landeldis.
Í fyrsta áfanga hyggst Landeldi ehf. koma upp 2.500 tonna árs framleiðslu en í beinu framhaldi ætlar fyrirtækið að ná 5.000 tonna framleiðslu af fullvaxta laxi á ári hverju. Ef um væri að ræða fyrirtæki í bolfiski með 5.000 tonna kvóta þá væri um ræða eina stærstu útgerð á landinu og því ljóst að áhrif þessara framkvæmda munu hafa mikil áhrif á atvinnulífið í Þorlákshöfn. Fram hefur komið að 5.000 tonna landeldi geti skapað 50 bein störf og um 25 önnur i tengdum greinum. Miðað við áformin verða því störf í eldi mun stærri þáttur í atvinnulífi sveitarfélagsins en nú er.
„Þorlákshöfn er einstaklega heppileg til landeldis, bæði hvað varðar seiða- og fulleldi. Ástæðan er sú að landrými er hér mikið, ofgnótt af fersku vatni, góður jarðsjór, mikill jarðvarmi og síðast en ekki síst þá er hér öflug og góð útflutningshöfn. Þar við bætist rík hefð og þekking mannauðsins á öllu sem tengist vinnslu sjávarafurða“, segir Elliði Vignisson bæjarstjóri.
Elliði segir að hann telji ríkar líkur á því að landeldi eigi eftir að verða sterkt hér á landi og bætast þar við fiskeldi í sjókvíum. „Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að hafa í huga að í dag kemur rúmlega helmingur alls sjávarfangs í heiminum úr eldi en innan við helmingur vegna veiða á villtum stofnum. Ef við ætlum ekki að dragast aftur úr þá þurfum við að stíga fastar fram í þessari vaxandi grein.“
Ölfus ætlar sér því að halda áfram að leggja jarðveginn og undirbúa sterka sókn í þessari atvinnugrein. „Ef vel tekst til gætu útflutningstekjur af fiskeldi á Íslandi hæglega orðið um 100 milljarðar á ári innan áratugar og stoðir atvinnulífs okkar hér orðið enn fleiri og sterkari en nú er. Það gefur því augaleið að mikið er í húfi fyrir þjóðina alla og þá ekki síst okkur hér í Ölfusi. Við höldum því áfram að vinna með áhugasömum frumkvöðlum sem og þeim sem hér eru fyrir og vilja vaxa.“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi.