Foreldrum barna í íþróttum boðið á fyrirlestur með Pálmari Ragnarssyni

Ungmennafélagið Þór býður upp á fyrirlestur með Pálmari Ragnarssyni annað kvöld, 10. september kl. 18:00. Fyrirlesturinn verður í Versölum í Ráðhúsi Ölfuss og fjallar um hvernig á að vera fyrirmyndar íþróttaforeldri.

„Pálmar Ragnarsson ætlar á skemmtilegan hátt að fjalla um það hvernig við getum verið fyrirmyndar íþróttaforeldrar og náð því besta út úr börnunum okkar, þjálfurum, dómurum og öðrum.“ Segir í tilkynningu frá Ungmennafélaginu Þór.

Pálmar Ragnarsson er fyrirlesari og körfuboltaþjálfari sem hefur slegið í gegn með fyrirlestrum um jákvæð samskipti sem hann hefur flutt víðs vegar um landið. Pálmar er með bs. gráðu í sálfræði og hefur starfað sem körfuknattleiksþjálfari við sérlega gott orðspor í 12 ár auk þess að hafa tekið þátt í verkefni ÍSÍ og UMFÍ: Sýnum karakter sem snýr að þjálfun andlegu hliðarinnar í íþróttum.

Ungmennafélagið Þór heldur þennan viðburð foreldrum að kostnaðarlausu.