Fasteignamat í Ölfusi hækkar um 10,3% á milli 2019 og 2020 en þetta kemur fram í erindi frá Þjóðskrá Íslands sem lagt var fyrir bæjarstjórn í seinustu viku. Fasteignamatið hækkaði einnig milli áranna 2018 og 2019 en þá hækkaði það um 12,7%. Fasteignamatið er endurmetið á hverju ári og tekur gildi 31. desember sama ár. Fasteignamat á íbúðarhúsnæði hækkar þó meira.
Fasteignamatið er grunnur fyrir álagningu fasteignaskatts, holræsagjalds og vatnsskatts hjá sveitarfélaginu. Að öllu óbreyttu mun þetta því hafa töluverð áhrif á álagningu fasteignagjalda sveitarfélagsins árið 2020. Í dag er fasteignaskattur á íbúarhúsnæði 0,35% af fasteignamati, vatnsskattur er 0,12% af fasteignamati og holræsagjald 0,25% af fasteignamati.
Fyrir árið 2019, þegar fasteignamatið í Ölfusið hækkaði um 12,7%, þá lækkaði bæjarstjórn álagningarprósentu fasteignagjalda úr 0,38% í 0,35%. Gera má ráð fyrir að þessi álagningarprósetna verði einnig endurskoðuð í fjárhagsáætlunarvinnu fyrir árið 2020 enda hefur Samband íslenskra sveitarfélaga skrifað undir yfirlýsingu í tengslum við lífskjarasamningana þar sem fram kemur að sambandið muni mælast til þess að á árinu 2020 hækki gjaldskrár sveitarfélaga að hámarki um 2,5%.