Sveitarfélagið Ölfus samdi nýverið við Íslenska gámafélagið um útflutning á sorpi sem „tryggir að allt sorp frá heimilum í sveitarfélaginu fer nú til endurvinnslu. Ekkert er urðað, ekkert fer til spillis og umhverfisáhrif eru lágmörkuð.“ Þetta kemur fram á vefsíðu Elliða Vignissonar.
Sveitarfélagið hefur í nokkur misseri unnið að innleiðingu á 4 þrepa flokkun. Pappinn og plastið hafa í dágóðan tíma farið í endurvinnslu og lífræna efnið til jarðgerðar. Út af borðinu hefur staðið það sem snýr að óflokkaða sorpinu. „Með undirrituninni nú tryggjum við að „óflokkaða sorpið“ fer í kjölfarið til sorporkuvera erlendis sem nýta það til að búa til rafmagn og varma til húshitunnar og dregur þar með úr skaða vegna brennslu á kolum og hættu sem fylgir kjarnorku,“ segir Elliði.