Hræðilegt atvik átti sér stað í Þorlákshöfn í gær þegar dekkin á hjóli Kristofers Óskars Dorotusonar voru losuð með þeim afleiðingum að hann flaug af hjólinu sínu, tönn brotnaði og hlaut hann stóran skurð á hökuna.
„Við vorum í fjóra tíma á sjúkrahúsinu í gær þar sem Kristófer var saumaður og í dag fórum við til Petru tannlæknis þar sem hún fyllti í tönn,“ segir Dóra Adamsdóttir móðir Kristófers í samtali við Hafnarfréttir.
Atvikið átti sér stað þegar Kristófer ætlaði að hjóla heim frá vini sínum. Þegar hann hjólaði af stað af gangstéttinni og niður á götu þá duttu dekkin af með fyrrnefndum afleiðingum.
„Maður sem var á gangi með hundinn sinn sá son minn á götunni og kom honum til hjálpar,“ segir Dóra um þetta ömurlega atvik en hún segir son sinn vera á batavegi.
Hafnarfréttir vilja hvetja foreldra til þess að ræða við börn sín um alvarleikana sem fylgja svona gjörningi.