Ræddi samvinnu og sameiningu Ölfuss og Grindavíkur

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, ræddi hugmyndir um sameiningu sveitarfélagsins við Grindavíkurbæ á opnum fundi á Bryggjunni í Grindavík í gær. Þetta kemur fram á Facebook síðu Elliða en á fundinum velti hann upp hugmyndum um aukið samstarf sveitarfélaganna og eftir atvikum sameiningu.  

Elliði var með glærukynningu þar sem fram kom ákveðin framtíðarsýn fyrir sameinað sveitarfélag Grindavíkur og Ölfuss sem bæri nafnið Suðurstrandarbær. Sveitarfélagið yrði um 1.163 km2 og með um 5.600 íbúa.

Fram kom að sveitarfélagið yrði sérhæft í matvælaframleiðslu, með sterkan sjávarútveg, fiskeldi, hverskonar lífefnaiðnað og með sterka inn- og útflutningshöfn og greiðarlega orkuvinnslu. Sveitarfélagið yrði mikið “orkuvinnslu sveitarfélaga sem sjálft myndi stofna veitu til að “keppa við HS og ON”.

Gestur Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar í Ölfusi, virðist jákvæður gagnvart þessari hugmynd og segir á facebook síðu sinni að “Það er klárt að sameinuð yrðu þessi sveitarfélög ógnarsterk og öflug af mannauð og náttúruauðlindum til sjávar og lands. Klárlega sóknarfæri fyrir bæði sveitarfélögin að byrja á að vinna saman að góðum málum“

Ljóst er að þessar hugmyndir eru á frumstigi þar sem engar formlegar viðræður eru í gangi á milli sveitarfélaganna.