Ölfus hafnar sameiningartillögu Árborgar

Bæjarstjórn Ölfuss hafnaði í gær erindi frá Sveitarfélaginu Árborg um sameiningarviðræður sveitarfélaga í Árnessýslu.

Bæjarstjórnin fagnaði því að bæjarráð Árborgar „skuli nú stíga fram og lýsa vilja til að nálgast nágranna sína og samstarfsaðila á jafningjagrunni til að kanna forsendur sameiningar sveitarfélaganna. Á sama tíma hefur framganga bæjarfulltrúa Árborgar hinsvegar ekki verið með þeim sama hætti líkt og kom fram á haustfundi Héraðsnefndar Árnesinga nú í október, en á þeim fundi var m.a. rædd og tekin ákvörðun um framtíðarstaðsetningu á Héraðsskjalasafni Árnessýslu innan sýslunnar.“

Bókun bæjarstjórnar í heild má nálgast hér að neðan:

Bæjarstjórn Ölfuss fagnar því að bæjarráð Sveitarfélagsins Árborgar skuli nú stíga fram og lýsa vilja til að nálgast nágranna sína og samstarfsaðila á jafningjagrunni til að kanna forsendur sameiningar sveitarfélaganna. Á sama tíma hefur framganga bæjarfulltrúa Árborgar hinsvegar ekki verið með þeim sama hætti líkt og kom fram á haustfundi Héraðsnefndar Árnesinga nú í október, en á þeim fundi var m.a. rædd og tekin ákvörðun um framtíðarstaðsetningu á Héraðsskjalasafni Árnessýslu innan sýslunnar.
Einnig ber að nefna að sveitarfélögin voru síðast í viðræðum um sameiningu á árunum 2016 til 2017 en þeim viðræðum lauk án niðurstöðu. Bæjarstjórn Ölfuss lýsir sig því ekki reiðubúna að svo stöddu til viðræðna um sameiningu sveitarfélaganna.