Frændurnir frábærir þegar Þórsarar unnu Hauka sannfærandi

Frændurnir Emil Karel og Halldór Garðar voru frábærir gegn Haukum.

Þórsarar unnu sterkan sigur á Haukum í Domino’s deildinni í körfubolta þegar liðin mættust í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í gærkvöldi.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Haukarnir þó skrefi á undan og leiddu með sex stigum í hálfleik. Þórsarar byrjuðu þriðja leikhlutann frábærlega með fyrirliðan Emil Karel í broddi fylkingar sem skoraði þrjár þriggja stiga körfur í röð. Þá var ekki aftur snúið og kláruðu Þórsarar leikinn sannfærandi 89-80 þar sem Haukar náðu engu áhlaupi gegn sterkum Þórsurum í síðari hálfleik.

Frændurnir Emil Karel og Halldór Garðar áttu frábæran leik í gær og voru stigahæstu menn Þórsara í leiknum. Halldór skoraði 26 stig og gaf 12 stoðsendingar. Emil skoraði 22 stig og Marko Bakovic átti góðan leik með 17 stig, 10 fráköst og 5 varin skot. Vincent Bailey skoraði 10 stig og tók 9 fráköst, Dino Butorac bætti við 7 stigum, Ragnar Örn 5 og Davíð Arnar 2 stig.