Sterkur liðssigur Þórsara gegn Fjölni

Fyrirliðinn Emil Karel Einarsson var frábær að vanda í kvöld. Mynd: Bára Dröfn / Karfan.is

Þórsarar unnu sterkan sigur á Fjölni í kvöld þegar liðin mættust í Domino’s deildinni í Grafarvogi í kvöld. Þar með hefur liðið unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í kvöld en annar leikhluti Þórsara var frábær og má segja að hann hafi lagt grunninn að sigrinum gegn Fjölni. Heimamenn áttu áhlaup í lokin en það dugði ekki til og 83-91 urðu lokatölur leiksins.

Flott framlag var í liði Þórs í kvöld og dreifðist stigaskorið vel á milli leikmanna. Vincent Bailey skoraði 21 stig, Emil Karel með 19. Halldór Garðar frændi hans bætti við 17 stigum og það gerði Dino Butorac einnig. Marko Bakovic var flottur með 12 stig og 12 fráköst. Davíð Arnar skoraði 3 stig og Ragnar Örn 2.