Sr. Sigríður Munda ráðin sóknarprestur í Þorlákshafnarprestakalli

Sr. Sigríður Munda Jónsdóttir hefur verið ráðin sóknarprestur í Þorlákshafnarprestakalli. Hún mun sinna kirkjustarfi í þeim þremur kirkjum sem tilheyra prestakallinu, Þorlákskirkju, Hjallakirkju og Strandarkirkju.

Sigríður Munda hefur verið starfandi prestur á Ólafsfirði síðustu 16 ár en er fædd á Akranesi 1. júlí 1966 og ólst upp í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.

Sigríður Munda ætlar að flytjast til Þorlákshafnar og hún segist hlakka mikið til að koma og setjast þar að:

Það var svo vel tekið á móti mér og ég er bjartsýn og vongóð um að það sé gott að vera í Þorlákshöfn

Hana langar að brjóta upp helgihaldið, vinna með nýjungar og nýta þá styrkleika sem búa í samfélaginu:

Við erum öll að vinna í því sama, að láta okkur líða betur og huga að vellíðan hvers annars og okkar sjálfra

Það liggur ekki fyrir hvenær Sigríður Munda tekur til starfa en við hjá Hafnarfréttum óskum henni velfarnaðar í nýju starfi og hlökkum til að eiga frekari samskipti við hana í framtíðinni. Þorlákshafnarbúar munu án efa taka vel á móti Sigríði og nýjum áherslum í kirkjustarfinu.