Digiqole ad

Vítin vildu ekki niður í Breiðholti

 Vítin vildu ekki niður í Breiðholti

Mynd: Þorsteinn Eyþórsson / karfan.is

Þórsarar þurftu að sætta sig við svekkjandi fimm stiga tap í gærkvöldi þegar liðið mætti ÍR í Hertz-hellinum í Domino´s deildinni í körfubolta. Lokatölur urðu 90-85.

ÍR-ingar voru sterkari framan af í fyrri hálfleik en Þórsarar náðu sér á strik um miðbik annars leikhluta og náðu að jafna leikinn í 39-39 í hálfleik.

Þórsarar héldu uppteknum hætti í þriðja leikhlutanum og spiluðu frábæran körfubolta þar sem næstum hvert einasta skota rataði rétta leið. Mest náðu Þórsarar 14 stiga forystu þegar fjórar mínútur lifðu af þriðja leikhluta.

Hægt og rólega kom ÍR sér aftur inn í leikinn og þegar einungis þrjár mínútur voru eftir af leiknum komust þeir yfir og náðu að sigla í höfn sigri eftir mikinn baráttuleik jafnra liða.

Vítanýting Þórsara var ekki góð í leiknum, einungis 47% nýting á móti 80% nýtingu ÍR-inga. Það furðulega við þetta er að Þórsarar tóku 14 vítaskot í fjórða leikhluta en aðeins eitt víti í fyrri hálfleik. Þórsarar klikkuðu úr 8 vítaskotum í 14 tilraunum í loka leikhlutanum.

Eftir leikinn sitja Þórsarar í 9. sæti og eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppni og einnig mikilli baráttu um að halda sæti sínu í deildinni. Hver einasti leikur skiptir núna miklu máli.

Næsti leikur Þórs er á fimmtudaginn þegar Baldur Þór og hans menn í Tindastól mæta í Icelandic Glacial höllina í Þorlákshöfn.