Stöndum þétt saman

Aðstæðurnar sem við glímum núna við eru vægast sagt krefjandi og munu því miður hafa einhverjar afleiðingar í för með sér fyrir okkur öll. Þó svo að óvissuástand ríki verður að horfa bjart fram á veginn og takast á við þetta verkefni af auðmýkt, æðruleysi og bjartsýni. Við þurfum öll að standa þétt saman og leggjast á eitt við að halda samfélaginu gangandi. Erfiðir tímar blasa við fyrirtækjum og ljóst að þjónusta og starfsemi Sveitarfélagsins muni einnig skerðast næstu misserin.

Viðbrögð starfsmanna Sveitarfélagsins til fyrirmyndar

Sú staða sem nú er uppi mæðir e.t.v. hvað mest á þeim starfsmönnum sem mynda framvarðarsveitina. Þau sem sjá um okkar mikilvægustu þegna þannig að við hin getum sinnt okkar vinnu áhyggjulaus. Stjórnendur og aðrir starfsmenn Sveitarfélagsins hafa tekið þessu verkefni af einskærri auðmýkt og yfrvegun og lagt mikið á sig til að unnt sé að halda úti starfsemi. Þannig hefur Sveitarfélagið getað framfylgt þeim tilmælum sem komið hafa frá Landlæknisembættinu og sóttvarnarlækni. Það er í raun magnað að upplifa þá jákvæðni sem ríkir meðal starfsmanna þó einhverjir hafi vissulega áhyggjur af ástandinu. Sú aðdáunarverða jákvæðni og elja fyllir mann stolti og fyrir framgöngu ykkar og samheldni færi ég ykkur þakkir.  

Verslum í heimabyggð

Viðbrögð verslana og annarra fyrirtækja í Ölfusinu hafa einnig verið til mikillar fyrirmyndar og ljóst að engan bilbug er að finna á meðal rekstraraðila. Þau þurfa þó á okkar hjálp að halda. Róðurinn mun þyngjast og því skiptir mun meira máli en áður að við léttum undir og beinum viðskiptum okkar til þeirra. Sækjum ekki langt yfir skammt og verslum í heimabyggð! Við búum svo vel að hafa alla mögulega þjónustu við fingurgómana. Í sveitarfélaginu eru ógrynni veitingastaða allt frá pylsuvagninum í Selvogi, að Hafinu Bláa við Ölfusárósa og Ingólfsskála undir rótum Ingólfsfjalls. Að ógleymdum þeim veitingastöðum sem staðsettir eru í höfuðsstaðnum Þorlákshöfn sem allir hafa aðlagað sig að breyttum aðstæðum. Við höfum einnig hér kjörbúð sem hefur heldur betur aukið þjónustu við okkar viðkvæmustu hópa með því að bjóðast til að senda vörur heim að dyrum. Apótek, bakarí, hársnyrtistofur, ferðaþjónustufyrirtæki, vínbúð og eflaust má lengi telja. Okkur ætti því ekki að skorta neitt.

Styttir upp um síðir

Þessi vetur hefur verið erfiður að mörgu leyti. Hér höfum við þurft að eiga við hverja lægðina á fætur annarri og er Covid-19 bara enn ein. Rétt eins og aðrar lægðir mun þessi ganga yfir. Þangað til þurfum við að reiða á hvert annað og hjálpast að. Fylgjum þeim leiðbeiningum sem heilbrigðisyfirvöld hafa gefið okkur, förum vel með okkur og hugum sérstaklega að okkar viðkvæmustu hópum. Margir hafa nú þegar brugðist við með hugvitsamlegum hætti, til að gera öðrum dagana bærilegri, einfaldari og jákvæðari sem færir manni kraft og blæs manni byr í seglin. Með áframhaldandi samheldni og samstöðu munum við komast hratt og örugglega í gegnum þetta.

Með kærri kveðju
Grétar Ingi Erlendsson
formaður bæjarráðs