Elliði bæjarstjóri skúrar leikskólann

Ótímabundið verkfall Eflingarfólks hefur haft mikil áhrif á viðbragðsgetu Sveitarfélagsins Ölfuss.  Starfsmaður sá er sér um ræstingar er í Eflingu og því hefur leikskólastarf orðið fyrir mikilli röskun.  Þær fregnir bárust í dag manna á milli að bæjarstjórinn, Elliði Vignisson, hafi sjálfur gengið til þeirra verka að þrífa leikskólann til að geta veitt börnum í forgangshópum þjónustu.

„Jújú, það er alveg kórrétt, ég hef sannarlega gengið til þessara starfa enda er þjónusta við börn jafnvel enn mikilvægari í því neyðarástandi sem nú ríkir en áður.  Á það hafa barnageðlæknar og sálfræðingar bent.  Okkar fagfólk á leikskólanum þekkir sama veruleika.  Ég hef reyndar einnig gengið í þrif í ráðhúsinu enda okkur uppálagt af sóttvarnalækni að huga að öryggi okkar starfsmanna.“

Elliði segir að það fylgi því ábyrgð að gegna opinberum störfum í neyðarástandi eins og núna.  „Þetta snýst ekki bara um líðan barnanna þótt það skipti miklu.  Hjá okkur eru hátt í 40 börn sem eiga foreldra á forgangslista.  Það merkir að ef við lokum leikskólanum þá kæmust hjúkrunarfræðingar og fleiri sem gæta að lífi og öryggi almennings ekki í vinnu.  Ég, eins og aðrir starfsmenn þessa sveitarfélags ganga því til þeirra starfa sem þarf að gegna hverju sinni og tel það ekki eftir mér. Hinu sama gegnir um leikskólastjórann sem lyft hefur grettistaki í að halda skólanum opnum, eins og almannavarnir biðja um, og ekki talið það eftir sér að ganga í öll störf.  Framlag mitt kemst ekki í hálfkvist við hennar.  Nú spáir enginn í starfslýsingu eða hvað klukkan er. Við stöndum öll saman á þessum erfiðu tímum, við erum öll almannavarnir.“

Aðspurður hversu lengi hann treysti sér í þetta segir Elliði að það sé erfitt að segja.  „Það er erfitt að taka ákvarðanir núna.  Við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér en við vitum að við erum að fara í langhlaup.  Í dag tekst okkur að halda 3 deildum opnum og þjónustum börn allra foreldra sem eru í forgangshópi.  Vera kann að þegar fram sækir þurfum við að skerða forgangshópinn með tilheyrandi samfélagslegum áhrifum.

Í kvöldfréttum sagði Sólveig Anna, formaður Eflingar að sveitarfélögin væru að notfæra sér COVID-19 faraldurinn í samningaviðræðunum.  Elliði segir aðspurður vart vita hvort hægt sé að taka fólki sem talar svona núna alvarlega.  „Ég veit ekki hvort að Sólveig Anna gerir sér grein fyrir því að COVID veiran er ekki einhver PR brella.  Þetta er dauðans alvara í orðanna fyllstu merkingu. Allt, eða réttara sagt næstum því allt, samfélagið stendur nú saman í baráttunni við þennan vágest.  Sett eru neyðarlög, samkomubönn, öndunarvélum fjölgað og ferðabönn sett á svo eitthvað sé nefnt. Við erum óttaslegin og leggjumst á eitt í samhjálp sem er okkar eina vopn. Á þeim tíma vogar Sólveig Anna sér að halda því fram að ég eða aðrir hjá sveitarfélögum séum að notfæra okkur ástandið.  Ég er alinn upp af verkakonu í Eyjum og þegar ég sýndi af mér ónærgætni eða fávitaskap þá sagði hún „skammastu þín“.  Það er ekki laust við að mér verði hugsað til þeirra orða.“