“Númer eitt, tvö og þrjú er að vera hress og halda hópinn”

Svava Rán Karlsdóttir er Ölfusingur vikunnar. Hún ólst upp í Þorlákshöfn og flutti aftur heim frá Bretlandi í fyrra. Svava Rán rekur nú fjölskylduveitingastaðinn Meitilinn með foreldrum sínum, elskar Skötubótina og er ólæknandi rómantíker með meiru!

Fullt nafn:
Svava Rán Karlsdóttir

Aldur:
45, verð 46 í desember þó ég trúi því svosem ekki sjálf!

Fjölskylduhagir:
Ég er fráskilin og varð hissa að komast að því að sá titill fyrnist ekki. Ég þarf víst að gifta mig aftur til að breyta því. Mér finnst að fráskildir ættu að fá að vera einhleypir aftur eftir t.d ár. Á ég þá að segjast vera fráskilin í sambandi?

Starf:
Mig hefur alltaf langað til að titla mig iðnjöfur en veit ekki hvort ég kemst upp með það. Ég rek fjölskylduveitingastaðinn Meitlinn með foreldrum mínum. Ég er enskufræðingur með MBA gráðu að mennt þannig það var smá hringur að enda sem pizzubakari.

Hvað ertu búin að búa í Ölfusi í langan tíma?
Ég er fædd og uppalin í Þorlákshöfn en fór héðan til Reykjavíkur í menntó og svo háskóla áður en ég flutti til Bretlands hvar ég bjó i 16 ár. Ég kom svo aftur heim í janúar 2019 þannig ég er búin að vera hér i þetta sinnið í rúmt ár.  Ég segist reyndar vera eins mikill Þollari og hægt er að verða, Sigga amma og Kalli afi voru frumbyggjar hér 1954 og Hulda amma og Siggi afi komu svo 1964 þannig foreldrar mínir eru eiginlega fyrsta kynslóð Þorlákshafnarbúa. Ég get eiginlega ekki farið í hús hérna án þess að hitta á skyldmenni.

Hver er uppáhalds maturinn þinn?
Ég er of gráðug til að vera alvöru matgæðingur, er meira fyrir að graðga í mig hugsunarlaust. En ef ég þyrfti að velja eitthvað eitt til að borða það sem eftir er þá væri það eflaust skyr með rjóma. Það er bara ekkert betra.

Áttu þér uppáhalds bók, hver er hún?
Ég var mikill lestrarhestur og það eru margar bækur sem koma í hugann en allra, allra best er Aulabandalagið eftir John Kennedy O´Toole. Hún er ein af þessum sem ég get lesið aftur og aftur og alltaf jafn skemmtileg og svo er hún svo snilldar vel þýdd.

Hvaða kvikmynd getur þú horft á aftur og aftur?
Hér kem ég upp um að ég er ólæknandi rómantíker og verð að segja Princess Bride. Það er reyndar ekki hægt að horfa á hana með mér þvi ég leik öll hlutverkin og tala yfir hana; “Life is pain your highness, anyone who tells you differently is selling something”.

Hvað hlustar þú mest á?
Ég er orðin svo gömul að það er núna bara “podcast” eða hlaðvarp eins og það heitir á íslensku. Mest þar sem er verið að kryfja atburði í sögunni og skoða í nýju ljósi og svo ánetjaðist ég breskum húmor í Bretlandi og hlusta mikið á gamanþætti þaðan.

Hver er þinn uppáhaldsstaður í Ölfusi?
Má vera að það sé klisja en er eitthvað fallegra en Skötubótin okkar? Þaðan á ég svo margar góðar minningar; brunandi um með pabba á Willis jeppa, sumrin okkar krakkana með kakómalt í flösku að veltast um í sandinum, og svo fegurðin. Sem heimkominn Íslendingur er ég enn agndofa yfir landinu okkar, víðáttunni, hrikaleikanum, ferskleikanum, fegurðinni. Skötubótin sameinar þetta allt.

Hvernig hressir þú þig við þegar þess þarf?
Það fer kannski eftir því við hverju þarf að hressa sig. Að taka upp gítarinn og glamra undir eigin gaul er bót við flestu, villtur dans við góðri tónlist á oft við, gott jógaflæði aðrar stundir. Mér finnst heldur ekkert leiðinlegt að hitta vini og fá smá rauðvín sko. Það er alltaf hressandi.

Hver er þín helsta fyrirmynd?
Mamma og pabbi. Þau er algerlega það sem ég vil vera. Opin og einlæg, samheldin, hress og gersamlega ódrepandi í gegnum allt sem hefur gengið á í gegnum tíðina. Ef ég get gefið syni mínum sömu ást, uppörvun og öryggisnet sem þau hafa gefið mér hef ég gert rétt í lífinu.

Hvaða lag fær þig til að dansa?
Alltaf More than a Feeling með Boston. Ég þykist vera einhver indie rokkari en það er alltaf glamúr ballöður sem hreyfa mest við sálinni minni.

Hefur þú grátið af gleði? Ef svo, hvað aðstæður kölluðu fram gleðitárin?
Bara síðast núna í dag þegar ég náði í son minn á flugvöllinn. Hann býr hjá pabba sínum í Bretlandi þannig ég sé hann ekki nógu oft en þessar stundir sem við eigum saman eru góðar og dýrmætar. Eg er reyndar meyr og með mjúkan innivið þannig ég tárast oft og þá yfir fallegri tónlist helst. Það eru þó nokkur lög sem ég bara get ekki sungið af því ég græt svo mikið þegar þau hljóma. Þó algerlega af gleði yfir fegurðinn. 

Hvað elskar þú við Ölfus?
Hér eru ræturnar, hér er allt mitt fólk, hér er mitt öryggisnet. Ég gæti ekki hugsað mér betri stað núna.

Hvað myndir þú vilja sjá í Ölfusi sem ekki er hér nú þegar?
Mér dettur lítið í hug svona fyrst. Eins og ég segi þá persónulegar er hér allt mitt fólk, vinir og fjölskylda sem styðja mig og vilja mér með. Svo er hér allt til alls; sundlaug og jóga og búð og heilsugæsla og fín veitingahús og allt sem þarf í daglegu lífi og meira til. Ég er svo sjálfhverf að ég er reyndar ekkert búin að hugsa út í hvað gerist þegar ég verð áttræð og með göngugrind og smá slompuð af sjérri drykkju og hvort það sé aðstaða fyrir mig þá. Er það það sem vantar?

Hver er uppáhalds æskuminningin þín?
Það er kannski meira tilfinning en minning, en “næskvöld” heima með mömmu, pabba og Kalla bróður eru sterk minning. Þá vorum við bara saman fjölskyldan og höfðum það gott.

Hvert dreymir þig um að fara?
Mig hefur alltaf langað til Costa Rica, taka viku í frumskóginum og skoða jagúara og letidýr og eyða svo einni viku á ströndinni með kokteila. Það hljómar vel. Ég er líka mjög spennt fyrir að fara og grafa upp risaeðlubein, er búin að sjá að það er hægt að gera á ýmsum stöðum um heiminn. Það þætti mér gaman.

Áttu þér uppáhalds mottó, eða einhver orð sem þú hefur í huga dags daglega?
Mottóið mitt eins og margir vita er “Númer eitt, tvö og þrjú er að vera hress og halda hópinn” Þetta virkar í öllum aðstæðum og minnir okkur á að þetta snýst að lokum allt um að vera jákvæður og treysta hvort öðru. Hvað þarf meira en það?

Hvað er framundan hjá þér?
Það er alltaf eitthvað í gangi, nú á þessum skrýtnu tímum er það bara að gera eins vel og ég get til að passa upp á alla í kringum mig og halda öllu gangandi.

Eitthvað að lokum?
Ég er mjög glöð að vera komin heim og þakka fyrir alla sem hér eru og hafa tekið mér vel, bæði kúnnar á Meitlinum og vinir og vandamenn. Hér er gott að vera og mér þykir óendanlega vænt um alla hér í Ölfusinu. Ég ætla að halda áfram að gera mitt besta til að þakka fyrir mig.