Samþykkt að reisa fjölbýlishús að Reykjabraut 2

Á síðasta fundi Skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss var samþykkt að breyta lóðinni að Reykjabraut 2 úr verslunar- og þjónustusvæði og í íbúðasvæði. Eftir breytinguna verður heimilað fjölbýli á lóðinni fyrir allt að 18 íbúðir.

Eigendur lóðarinnar höfðu á síðasta ári óskað eftir að reisa á lóðinni tvö tveggja hæða fjölbýli með 8 íbúðum í hvoru húsi til sölu. Þá myndi pósthúsið hýsa 7 smærri íbúðir til langtímaleigu.

Tvennar athugasemdir bárust vegna lóðabreytingarinnar og var önnur þeirra undirskriftarlisti. Í afgreiðslu skipulagsnefndar segir að tekið hafi verið tillit til athugasemdanna og samþykkti nefndin tillöguna til auglýsingar.