Krítum inn sumarið

Nú er sumardagurinn fyrsti á næsta leiti en samkvæmt dagatalinu á sumarið að bresta á fimmtudaginn 23. apríl. Nú á þessum fordæmalausu tímum verður ekki hægt að koma saman til að fagna deginum eins og hefð er fyrir í Þorlákshöfn og víðar en Þorlákshafnarbúar deyja ekki ráðalausir frekar en fyrri daginn og ætla að kríta inn sumarið, taka myndir af listaverkum sínum og fylla samfélagsmiðla af glaðlegum, litríkum og sumarlegum myndum, ekki veitir af. Þá er tilvalið að merkja myndirnar #krítuminnsumarið og #hamingjanerhér og deila þeim einnig inn á viðburðinn.

Ágústa Ragnarsdóttir

Ágústa Ragnarsdóttir fékk þessa skemmtilegu hugmynd og hefur búið til viðburð á facebook þar sem finna má skemmtilegar hugmyndir af listaverkum sem hægt er að kríta en svo er auðvitað um að gera að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn.

Þetta er skemmtilegt verkefni sem allir, einir sér eða með fjölskyldunni, geta leikið sér með og tekið þátt. Eins og Ágústa segir „Koma svo – KRÍTUM INN SUMARIÐ saman en samt í sundur“