Sumarið krítað inn

Sumarið hefur svo sannarlega verið krítað inn í Þorlákshöfn á seinustu dögum. Hugmyndin var að kríta inn sumarið á sumardaginn fyrsta, taka myndir af listaverkunum og fylla samfélagsmiðla af glaðlegum, litríkum og sumarlegum myndum.

Einhverjir náðu að nýta sumardaginn fyrsta í verkefnið en það verður að segjast eins og er að veðrið hefði getað verið betra. Margir nýttu því veðurblíðuna í gær til að kríta inn sumarið.

Við hjá Hafnarfréttum höfum fengið nokkrar myndir sendar og þurfti að nota dróna til að taka myndir af sumum listaverkunum vegna stærðar þeirra. Einnig voru myndir settar inn á samfélagsmiðla með merkinu #krítuminnsumarið og #hamingjanerhér.