Ungt heimafólk tekur við rekstri tjaldsvæðisins

Í dag tóku þau Jóhannes Gylfason og Lára Hrund Bjargardóttir við rekstri tjaldsvæðisins í Þorlákshöfn með undirritun samnings þess efnis. Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að auglýst hafi verið eftir samstarfsaðilum og þau Jóhannes og Lára, sem eiga og reka fyrirtækið „Grænni Jörð“, hafi orðið fyrir valinu.

„Það er náttúrulega frábært að fá ungt og ferskt heimafólk með áhuga og þekkingu til að taka verkefni sem þessi undir sinn verndarvæng. Við vitum vel að tjaldsvæðið hér er eitt af þeim betri á landinu svo ekki sé nú minnst á þessa stórkostlegu náttúru allt hér í kring. Við höfum fulla trú á því að með því að fela einkaaðilum reksturinn fáist aukinn fókus og fastari sókn en þegar þetta er rekið sem hluta af okkar stóra rekstri.“

Samkvæmt samningi verða tjaldsvæðin að lágmarki opin frá 1. maí ár hvert til 15. september en Elliði segir að Jóhannes og Lára stefni að því að hafa mun meira opið en áður hefur verið. „Samskipti við þau hafa verið afar jákvæð og það fer ekki á milli mála að þau hafa mikinn og einlægan áhuga á því að efla tjaldsvæðið og reyndar bæinn allan. Það er á sama máta gaman að finna það hvað okkar góðu bæjarfulltrúar eru tilbúnir til að fela aðilum að taka að sér rekstur sem þennan.“