Þrjár lausar íbúðir til leigu í nýju húsi Bjargs

Framkvæmdir eru í fullum gangi við nýtt fjölbýlishús sem Bjarg íbúðafélag er að byggja í Þorlákshöfn. Í húsinu verða 12 leiguíbúðir í tveggja hæða fjölbýlishúsi við Sambyggð 14b og af þessum 12 íbúðum eru eftir þrjár tveggja herbergja íbúðir lausar til umsóknar á heimasíðu Bjargs.

Bjarg er leigufélag án hagnaðarsjónarmiða. Það þýðir að íbúðir eru leigðar á kostnaðarverði og leigufjárhæð því ákveðin þannig að rekstur íbúðanna sé sjálfbær.

Íbúðir Bjargs íbúðafélags eru fyrir fjölskyldur og einstaklinga á vinnumarkaði sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum og sem hafa verið virkir á vinnumarkaði og fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB í að minnsta kosti 16 mánuði, síðastliðna 24 mánuði miðað við úthlutun.

Meðfylgjandi myndir sýna útlitið á nýja fjölbýlishúsi Bjargs í Þorlákshöfn . Upphaf leigu er 1. október næstkomandi.