Brugðist við eftirspurn með auknu framboði á lóðum

Sveitarfélagið Ölfus hefur nú auglýst lóðir lausar til úthlutunar í nýju hverfi er kallast Norðurhraun í Þorlákshöfn. Hverfið mótar skemmtilega heild við innkomu bæjarins með góðri tengingu við Ölfusbraut. Það er samofið Sambyggð, Norðurbyggð og Básahrauni. Góð fjarlægð er frá aðal umferðaræðum þar sem að lágmarki eru um 30 metrar eru frá Ölfusbraut að byggingarreit þar sem gróðurbelti og mön mun ramma hverfið inn. Húsin tengjast náttúrulegu umhverfi eða leiksvæðum. Stutt er í alla helstu þjónustu, skóla og íþróttir.

Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að hverfið sé eitt af mörgum skrefum sveitarfélagsins í átt að frekari uppbyggingu. Hann segir að um sé að ræða annan áfanga nýrrar byggðar þar sem þrettán einbýlishúslóðir og tíu raðhúslóðir fara í úthlutun. Raðhúsalengjurnar telja 3 einingar hver.

„Seinast auglýstum við lóðir í september.  Þá var um að ræða lóðir fyrir 32 íbúðareiningar.  Auglýsing fór í loftið á þriðjudegi og á fimmtudegi var búið að sækja um allar lóðirnar.  Í þeirri stöðu völdum við að taka tafarlaust næsta skref og því var valið að ráðast í skipulagningu og framkvæmdir við þær 43 íbúðaeiningar sem nú hafa verið auglýstar.“

Elliði segir að það sé ekki neitt eitt svar við því hvers vegna Ölfusið sé að vaxa eins og raun ber vitni en á seinasta ári fjölgaði íbúum um 7%. „Þetta svæði hérna er náttúrulega einstakt. Hér getum við notið þess að búa í þéttu samfélagi sem heldur utan um sína íbúa en njótum um leið allra þeirra gæða sem borgarsamfélagið hefur upp á að bjóða. Lífstakturinn, aðgengi að þjónustu, rík náttúra og fleira skapar eftirsókn. Þá er atvinnulífið hér að eflast hratt, og þá ekki síst á forsendum umhverfisvænnar matvælaframleiðslu svo ekki sé nú minnst á höfnina.  Ekki má svo gleyma að mannlífið er fallegt og ríkt. Þetta er blanda sem virkar vel.“

Elliði segir að stór hluti þessara nýju íbúa sé á barneignaaldri og við því þurfi vissulega að bregðast. „Hlutfall eldri borgara í Ölfusi er umtalsvert undir landsmeðaltali og langt undir því sem er hér í nágrannasveitarfélögum eins og í Hveragerði og Árborg. Þetta hlutfall hefur verið að lækka á seinustu árum. Með það að leiðarljósi hefur þjónusta við börn og barnafólk verið þróuð með áherslu á að fjölga úrræðum. Bygging nýs fimleikahúss sem verður tekið í notkun í sumar bætir enn frekar þá einstöku aðstöðu sem er fyrir íþróttafólk hér í bæ. Þá hefur umönnun barna verið þróuð með til dæmis hærri niðurgreiðslu á þjónustu dagmæðra, hækkun á stuðningi við tómstundaiðkun, heimagreiðslum til þeirra sem velja að vera lengur heima með börnum sínum og fleira.  Við erum líka að leggja af stað með byggingu nýrrar álmu við leikskólann Bergheima og höfum þegar ákveðið að ráðast í stækkun grunnskólans.  Þetta gerum við án þess að það hleypi vindinum úr þjónustu við aðra hópa.“

Í dag eru skráðir íbúar í Ölfusi 2.278 og fjölgaði sem fyrr segir um rúmlega 7% í fyrra. „Við erum með gríðarlega sterka innri gerð og með því að styrkja hana samhliða íbúafjölgun óttast ég ekki vöxtinn heldur tel að honum fylgi aukin lífsgæði.  Fjölgun íbúa fylgir meira mannlíf, aukin verslun og þjónusta og svo margt annað. Ég hef þá trú að innan skamms verði hér í sveitarfélaginu fjögur til átta þúsund íbúar, í dreifbýli og þéttbýli“, segir Elliði og bætir því við að þegar allt kemur til alls snúist þetta ekki um fjölda íbúa heldur lífsgæði.