Klukkan ellefu í morgun á þessum fallega þjóðhátíðardegi Íslendinga var afhjúpað stórt og tignarlegt listaverk við Hafið Bláa við ósa Ölfusár. Um er að ræða sex metra langan og mannhæðarháan humar sem settur var upp til að heiðra hetjur hafsins en verkið heitir Humar við hafið.
Listamaðurinn er Þorlákshafnarbúinn og sjómaðurinn Kjartan B. Sigurðsson en Hannes Sigurðsson og Þórhildur Ólafsdóttir í VER voru búin að ganga með þá hugmynd í mörg ár að láta reisa þarna stóran humar. Í ár létu þau svo verða af þessu og fengu Kjartan í verkið. Kjartan byrjaði í lok janúar og lauk við verkið um síðustu helgi en humarinn er gerður úr trefjaplasti.
Kjartan hefur verið iðinn við listsköpun undanfarin ár samhliða sjómennskunni og hefur til að mynda skorið út stóra skúlptúra í rekavið í bílskúrnum heima.