Fyrr í dag skrifuðu fulltrúar Þorlákshafnar og Faxaflóahafna undir kaup og sölu á dráttarbátnum Jötni en kaupverðið er 220,5 milljónir. Báturinn hefur þegar hafið siglingu til Þorlákshafnar og er væntanlegur í kvöld. Báturinn verður sýndur bæjarbúum og öðrum áhugasömum á föstudaginn. Mun fólki þar gefast kostur til að fara umboð og fá nánari upplýsingar um þennan öfluga bát.

Jötunn var smíðaður í Hollandi árið 2008 og hefur verið í eigu Faxaflóahafna síðan þá. Hann er 19,3 metra langur og 96 brúttótonn.  Togkraftur hans er upp á 27 tonn. Báturinn er með tvær 1.000 hestafla Caterpillar aðalvélar og 107 hestafla hliðarskrúfu.

Við kaupin mun báturinn fá nafnið „Herdís“ og verður það fyrsti dráttarbáturinn í sögu hafnarekstur hér á landi sem ber kvenmannsnafn. Með nafninu er vísað til eins þekktasta kennileitis sveitarfélagsins þar sem lengi vel var kunn verstöð með fjölda sjóbúða og sér enn fyrir tóftum margra þeirra.

Elliði Vignisson bæjarstjóri segist afar ánægður með þessi kaup og framtíðartækifæri hafnarinnar.  „Staðan er einfaldlega sú að Þorlákshöfn er í dag ein af lykilvöruhöfnum landsins og enn meiri sókn framundan. Kaupin á dráttarbátnum eru eitt þeirra atriða sem við þurftum að tryggja til að framtíðaráform okkar gangi eftir. Við höfum orðað það svo að þau hafi verið nauðsynleg en hreint ekki nægjanleg.“  Elliði segir að næsta skref sé að stækka höfnina þannig að hægt verði að  taka inn allt að 180 metra löng og 30 metra breið skip. „Við hjá sveitarfélaginu höfum öll lagst á eitt við að tryggja fjármögnun þessa verkefnis og vonumst til þess að hægt verði að ljúka undirbúningi síðla árs og hefja verklega framkvæmd þar að lútandi á næsta ári. Gangi allt eftir gætum við horft til þess að árið 2022 verði hægt að taka í notkun gjörbreytta og öflugri höfn.“ 

Til marks um hversu mikil áhrif slík framkvæmd myndi hafa þá segir Elliði að skipafélög hafi sýnt því áhuga að hefja hingað siglingar á farþegaskipum í beinum og reglulegum siglingum á bæði Bretland og meginland Evrópu. Þar með geta inn- og útflytjendur valið milli þriggja ferða héðan frá Þorlákshöfn í hverri viku, en Smyril line er í dag með ferjurnar Akranes og Mykines í vikulegum siglingum. „Markmið okkar er einfalt, Þorlákshöfn á að vera lykilhöfn í siglingum með vörur og farþega milli Íslands og Evrópu en samhliða að þjóna fiskiskipaflotanum til jafns á við það sem best gerist.“