Úrslit í jólalagakeppni Hljómlistafélagsins

Hljómlistafélag Ölfuss efndi til jólalagakeppni þar sem tónlistarfólk í Sveitarfélaginu var hvatt til þess að semja lag og texta, taka upp og senda inn fyrir 1. desember. Það bárust 7 jólalög inn í keppnina sem öll voru alveg frábær og í raun framar vonum. Það var því erfitt verkefni sem dómararnir Salka Sól, Elliði Vignisson og Lára Rúnarsdóttir stóðu frammi fyrir en þeirra hlutverk var að gefa hverju og einu lagi stig. Stigin voru svo lögð saman og þannig lágu úrslitin ljós.

1. sæti

Í fyrsta sæti var lagið Um jólin ég og þú eftir Örnu Dögg Sturludóttur og Stefán Þorleifsson sem eru einnig flytjendur lagsins. Þau fá í verðlaun 20.000 kr. gjafakort í Hljóðfærahúsinu, þráðlausan hátalara frá Símanum og heyrnatól frá Pfaff.

2. sæti

Í öðru sæti var lagið Jólin okkar en höfundar þess lags eru þær Elísa Dagrún Jónsdóttir, Sólveig Grétarsdóttir og Eva Karen Ragnarsdóttir sem syngja lagið auk Herdísar Maríu Jónsdóttur en þess má geta að Elísa Dagrún spilar einnig á þverflautu í laginu. Þessar hæfileikaríku stúlkur eru aðeins 10 og 11 ára gamlar. Þær fá verðlaun í boði Pennans sem eru Popp og rokk saga Íslands, heyrnatól og kvikmyndin Með allt á hreinu.

3. sæti

Í þriðja sæti var Steini Lýðs með lagið sitt Heim til þín og hlýtur hann verðlaun frá Pennanum, Popp og rokksögu Íslands og Bráðina eftir Yrsu.

Hljómlistafélagið vill þakka öllum sem sendu inn lög í keppnina, eins og áður sagði þá voru lögin hver öðru betri og ansi mjótt á munum hvað stigin varðar.

Hljómlistafélag Ölfuss stendur fyrir jólatónleikum sem fara fram í beinu streymi föstudaginn 18. desember kl. 20, miðasalan er á tix.is og um leið og fólk kaupir miða fær það link sem vísar þeim á tónleikana þegar þar að kemur. Tónleikarnir eru fjáröflun fyrir uppbyggingu á æfinga- og upptökuaðstöðu Hljómlistafélags Ölfuss.