Áfram sótt!

Þrátt fyrir þau áföll sem dunið hafa yfir þetta árið er staða Sveitarfélagsins Ölfus sterk. Íbúum hefur fjölgað og allar forsendur til staðar fyrir áframhaldandi vöxt enda drjúpa hér tækifærin af hverju strái. Undanfarin ár hefur mikil áhersla verið lögð á að sækja og hagnýta þessi tækifæri. Við viljum enda skapa hér öflugt samfélag þar sem íbúar og fyrirtæki geta blómstrað. Gaman er frá því að segja að á því verður enginn breyting sé litið til fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins fyrir árið 2021 sem afgreidd var af Bæjarstjórn Ölfuss í gær.

Grunnskólinn stækkaður
Ölfus er frábær búsetukostur og spila skólarnir okkar risastórt hlutverk í því samhengi. Á næsta ári er fyrirhugað að byggja við Grunnskólann í Hveragerði í samstarfi við Hveragerðisbæ sem og að ráðast í hönnun á stækkun á Grunnskólanum í Þorlákshöfn. Aldrei hafa fleiri nemendur verið við nám í Grunnskólanum í Þorlákshöfn og útlit er fyrir áframhaldandi fjölgun. Það er því mikilvægt að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu svo hægt sé að ráðast í framkvæmdir áður en það þrengir að. Stefna sveitarfélagsins er enda að veita börnum og fjölskyldum þeirra framúrskarandi þjónustu.

Leikskólaplássum fjölgað
Á nýju ári verður ráðist í framkvæmdir við Leikskólann Bergheima með það markmið að fjölga leikskólaplássum. Að auki verður áfram lögð áhersla á að styrkja dagmæðrakerfið og heimagreiðslur verða áfram í boði fyrir þá foreldra sem það kjósa. Börnin eru enda framtíðin og mikilvægt að fjárfestingar sveitarfélagsins taki mið af því.

Uppbygging leiksvæða
Á síðustu tveimur árum hefur nýtt leiksvæði verið í uppbyggingu á milli Ráðhússins og Skrúðgarðar. Leiksvæðið hefur hlotið nafnið „Ærslaberg“ og nafnið dregið af ærslabelgnum sem notið hefur mikilla vinsælda meðal barna frá því að hann var tekinn í notkun. Nýlega var bætt við glæsilegum körfuboltavelli og fyrirhugað er að koma þar fyrir leiktækjum fyrir yngstu kynslóðina. Vonast er til að sú viðbót muni styrkja svæðið sem miðpunkt Þorlákshafnar og að allir aldurshópar geti fundið eitthvað fyrir sitt hæfi.

Æskulýðs- og tómstundastarf styrkt
Á tímum sem nú þarf að standa vörð um hagsmuni barna og ungmenna. Á næsta ári er stefnt að því að samþætta starf félagsmiðstöðvarinnar og frístundar undir nýja þjónustueiningu og setja sumarstarf undir hana. Ráðin verður faglærður verkefnastjóri sem mun leiða starfið með það fyrir augum að styrkja og auka þjónustu við börn og ungmenni. Líta má á þessa nýju einingu sem heildstæða þjónustustofnun fyrir börn og ungmenni utan hefðbundins skóla- og íþróttastarfs.

Innviðauppbygging fyrir eldri borgara
Í lok febrúar 2021 verða 4 nýjar og glæsilegar íbúðir við Níuna teknar í notkun. Þegar því verkefni lýkur verður ráðist í hönnun og framkvæmdir til að bæta sameiginleg rými við Egilsbraut 9. Ætlunin er að stórbæta þjónustu dagdvalar, endurskipuleggja samverurými, stækka matsal o.fl. Þá verður einnig horft til þess að greiða leið þeirra eldri borgara sem kjósa að búa í eigin húsnæði en vilja vera nálægt þjónustukjarnanum á Níunni. Fyrsta skrefið verður að ljúka skipulagi við svokallaða „Vetrarbraut“, vestan Sunnubrautar.

Atvinnulífið áfram í forgrunni
Árið 2020 réðist sveitarfélagið Ölfus í að stofna sérstakt þekkingarsetur, Ölfus Cluster, með það fyrir augum að styrkja og styðja við áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífsins. Ölfus Cluster hefur nú þegar sett mark sitt á þróun atvinnulífsins og þessi aðgerð því tekist með eindæmum vel. Stefnt er að áframhaldandi uppbyggingu setursins á næstu árum. Auk þess verða lóðir fyrir léttiðnað og aðra skylda atvinnustarfsemi, skipulagðar og auglýstar við Vesturbakka. Þá verður ráðist í hönnun atvinnusvæðisins í kringum hafnarsvæðið með áherslu á komu fyrirtækja sem þurfa stórar lóðir og gott aðgengi að viðleguköntum.

Það eru forréttindi að búa og starfa í sveitarfélaginu og ég hlakka til að halda áfram að taka þátt í og setja mark mitt á þá miklu uppbyggingu sem hér er að eiga sér stað.

Grétar Ingi Erlendsson
Formaður bæjarráðs