Digiqole ad

Glæsilegir jólatónleikar í kvöld – myndir!

 Glæsilegir jólatónleikar í kvöld – myndir!

Hljómlistafélag Ölfuss stendur fyrir jólatónleikum í kvöld, föstudaginn 18. des., sem verða í beinu streymi úr ráðhúsinu. Þar kemur fram fjöldinn allur af tónlistarfólki úr heimabyggð sem flytur fjölbreytt jólalög úr ýmsum áttum.

Jólatónleikarnir eru fjáröflunartónleikar, en eins og fram hefur komið þá er Hljómlistafélagið að safna fyrir uppbyggingu á æfinga- og upptökurými sem mun nýtast öllu tónlistarfólki í Sveitarfélaginu og komandi kynslóðum í tónlistarsköpun sinni. Hver einasta króna rennur óskipt í söfnunina þar sem allir sem koma fram gefa sínu vinnu og einnig allir sem starfa á bakvið tjöldin, en til að svona útsending gangi upp þurfa margir að koma að framkvæmdinni.

Síðustu daga hafa þær Ágústa Ragnarsdóttir og Erla Dan unnið að því að útbúa sviðið og óhætt að segja að það sé stórglæsilegt og gefi vel til kynna þann metnað sem lagður er í viðburðinn, meðfylgjandi myndir eru teknar í gærkvöldi þegar búið var að leggja lokahönd á sviðshönnunina.

Þau sem koma fram eru: Aðalbjörg Halldórsdóttir, Anna Margrét Káradóttir, Emilía Hugrún Lárusdóttir, Arna Dögg Sturludóttir, Steini Lýðs, Magnþóra Kristjánsdóttir, Jón Arason, Eva Þórey og Jón Óskar Erlendsson pabbi hennar, Auður Magnea og bróðir hennar Jakob Unnar Sigurðarson, Ásgeir Kr. Guðmundsson, Gestur Áskelsson, Stefán Þorleifsson, Ársæll Guðmundsson, þrjár stúlkur í 5. bekk, þær Sólveig, Eva Karen, Elísa og systir hennar Herdís í 6. bekk. Þá koma einnig fram lúðrablásarar úr Lúðrasveit Þorlákshafnar: Jón Óskar Erlendsson, Jón Óskar Guðlaugsson, Ása Berglind Hjálmarsdóttir, Helga Halldórsdóttir, Hermann Guðmundsson, Róbert Darling og Daði Þór Einarsson.

Kynnar eru Magnþóra Kristjánsdóttir og Ásta Margrét Grétarsdóttir og á bakvið tjöldin í útsendingunni starfa þau Róbert Dan Bergmundsson, Jón Þorleifur Steinþórsson, Gunnar Sigurðsson, Haukur Andri Grímsson, Guðjón Axel Jónsson og Ása Berglind Hjálmarsdóttir.

Tónleikarnir hefjast kl. 20 og er hægt að kaupa aðgang á tix.is en fyrirkomulagið er þannig að þegar búið er að kaupa aðgang þá kemur tölvupóstur með hlekk sem leiðir ykkur á tónleikana ásamt lykilorði sem þarf að slá inn. Það er hægt að logga sig inn nú þegar og því um að gera að aðstoða þá sem kunna að eiga í vandræðum með tæknilegu hliðina á þessu. Ef einhver lendir í erfiðleikum er hægt að hringja í Ásu Berglindi í síma 6927184.

Hér er miðasalan