Undirbúningur vegna stækkunar Bergheima vel á veg komin

Á fundi sínum í morgun ræddi framkvæmda- og hafnarnefnd stækkun leikskólans Bergheima en áform hafa verið uppi um framkvæmdir við leikskólann enda umtalsverð fjölgun íbúa á seinustu árum. Ekki hvað síst hefur fjölgað meðal fólks á barneignaaldri. 

Í viðtali við Hafnarfréttir sagði Eiríkur Vignir Pálsson, formaður framkvæmda- og hafnarnefndar, að á seinustu vikum hafi starfsmenn sveitarfélagsins unnið með Hjalla, rekstraraðila Leikskólans Bergheima, og Jóni Stefáni arkitekt frá JeES arkitektum að nýrri útfærslu með það að leiðarljósi að saman fari hagkvæmni framkvæmda og áhersla á faglega útfærslu og þjónustu við börn og foreldra þeirra. „Þetta hefur nú skilað nýjum hugmyndum sem að stærstu leyti eru betri nýting á starfsmannarýmum. Heildarstækkun leikskólans er nú áætluð um 73m2 en samhliða því verður hagrætt í starfsmanna og sérkennslurýmum um 15% eða úr 9,7 m2 í 8,9 m2 pr. barn.“ Eiríkur segir að enn sé vel rúmt um slík stoðrými en landsmeðaltal er um 8 m2 pr. barn. Vonir standa til að með þessu verði hægt að bæta við nýjum kjarna fyrir 20 börn og skólinn geti því tekið á móti að minnsta kosti 128 börnum. 

Eiríkur segir að áætlun nú gangi þó út á meira en eingöngu að fjölga þeim börnum sem eru þjónustuð á Bergheimum. „Auðvitað er lagt í þessa vegferð til að mæta jákvæðri þróun í fjölda barna. Við viljum hinsvegar samhliða nýta tækifærið og bæta aðkomu að skólanum, gera flæðið um hann skemmtilegra og þar fram eftir götunum. Leikskólinn er eitt okkar helsta stolt og það á að sjást í útliti og aðbúnaði jafnt sem í innra starfi“.

Eiríkur segir að hlutverk framkvæmda- og hafnarnefndar sé fyrst og fremst það sem snýr að verklega þættinum og hönnun. „Enn erum við eingöngu með frumhönnunargögn sem nú fara til kynningar meðal hagsmunaaðila svo sem foreldra og starfsmanna á leikskólanum, auk þess sem fræðsluráðið gegnir auðvitað lykilhlutverki við áframvinnslu þessa máls.“

Í fundargerð nefndarinnar kemur fram að upphafleg kostnaðaráætlun hafi verið um 150 milljónir en sú áætlun hafi nú verið lækkuð í rúmlega 61 milljón eða um hátt í 60%.  Í lokaorðum sínum segir nefndin: „Það er því ljóst að sérfræðiþekking Hjalla í samstarfi við starfsmenn er að skila mikilli hagræðingu.“