Segja Árborg ekki hafa staðið við sitt og vilja Héraðsskjalasafnið í Þorlákshöfn

Á fundi Héraðsnefndar Árnesinga 15. október árið 2019 var samþykkt að nýtt húsnæði Héraðsskjalasafns Árnessýslu verði á Selfossi. Bæði Sveitarfélagið Ölfus og Sveitarfélagið Árborg buðu fram gjaldfrjálsar lóðir undir starfsemina og auk þess buðust sveitarfélgögin til þess að byggja sérhannað húsnæði og leigja Héraðsskjalasafninu ef vilji stæði heldur til þess.

Núna, meira en einu ári síðar, hefur þó ekkert bólað á nýja húsnæðinu á Selfossi en bæjarráð Ölfuss tók málið fyrir á síðasta fundi sínum fyrir helgi.

„Eins og ítrekað hefur verið fjallað um á vettvangi bæði einstakra sveitarfélaga í Árnessýslu og á samstarfsvettvangi þeirra innan stjórnar Héraðsskjalasafnsins eru húsnæðismál safnsins langt frá því sem æskilegt er talið. Fullyrt hefur verið að engan tíma megi missa hvað úrbætur varðar,“ segir í fundargerð bæjarráðs Ölfuss.

Fram kemur í fundargerðinni að Árborg hafi nú haft sextán mánuði til þess að standa við það boð sem stjórn Héraðsskjalasafnsins ákvað að þiggja. „Seinagangurinn hefur orðið til þess að nú er svo komið að byrjað er að horfa til þess að flytja þá starfsemi sem Héraðsskjalasafnið hefur veitt Árnesingum allt frá 1985 til Reykjavíkur.“

Bæjarráð Ölfuss kallar því eftir því að framkvæmdum við húsnæðismál Héraðsskjalasafnsins verði hraðað í anda tilboða sveitarfélaganna.

„Eðlilegt og sanngjarnt verður að telja að þar sem Árborg hefur enn ekki getað staðið við það tilboð sem það lagði fram verði sú leið farin að byggja safnið í Ölfusi gegn þeirri aðkomu sem lýst hefur verið. Til viðbótar við það sem áður hefur verið boðið lýsir bæjarráð sig tilbúið til að veita sérstakan styrk til að mæta fasteignagjöldum af húsnæði þessarar menningarstarfsemi fyrstu fjögur árin,“ segir í fundargerðinni.

Þá segir að verði þessu boðið tekið ætti útboð á hönnun að geta átt sér stað núna í mars og útboð vegna framkvæmda í síðasta lagi í apríl.

„Framkvæmdir ættu að geta hafist eftir mitt ár og menningarstarfsemi Héraðsskjalasafnsins gæti þá verið komin í framtíðarhúsnæðið sem kallað er eftir strax á næsta ári,“ segir að lokum í bókun bæjarráðs Ölfuss.