Vetrarbraut verði ekki lengur eyrnamerkt eldri borgurum

Ákveðið hefur verið að lóðir sem voru ætlaðar undir íbúðir eldri borgara við Vetrarbraut verði úthlutað samkvæmt almennum úthlutunarreglum sveitarfélagsins Ölfuss „svo fljótt sem verða má“. Þar með verður gatan ekki lengur eyrnamerkt eldri borgurum.

Málið var tekið fyrir á síðasta fundi bæjarstjórnar Ölfuss þar sem segir að komið hafi í ljós, við eftirgrennslan skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss, að lítil eftirspurn væri eftir lóðum til að byggja húsnæði ætlað eldri borgurum, bæði hjá byggingaraðilum og leigufélögum.

Gatan Vetrarbraut sést hér vinstra megin á litaða svæðinu á myndinni.

D-listinn, meirihlutinn í bæjarstjórn, samþykkti breytingingatillöguna á deiliskipulaginu en O-listinn greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Bæjarfulltrúar O- listans telja að ekki sé ráðlegt né tímabært að úthluta og ráðstafa öllum fyrirhuguðum lóðum við Vetrarbraut án þess að horft sé til þess að minnsta kosti hluti þeirra muni nýtast eldri íbúum sveitarfélagsins sérstaklega.

„Eins og skýrt er tekið fram í greinargerð með áður gerðri breytingu á deiliskipulagi var markmiðið að fjölga íbúðum fyrir eldri íbúa í nágrenni við dagdvöl og aðra þjónustu að Egilsbraut 9. Í viðkomandi greinargerð var ekki talað um að nýta svæðið undir íbúðir á almennum markaði,“ segir í bókun minnihlutans.

Þá segja þau jafnframt að sveitarfélagið þurfi að setja sér skýra stefnu í þessum efnum og jafnframt að eiga samtal við íbúa í þeirri vinnu. „Við leggjumst ekki gegn því að skoðað verði að þessum lóðum verði úthlutað að hluta án takmarkanna en áður en lengra er haldið teljum við mikilvægt að greina betur framtíðarþörfina á viðkomandi húsnæði.“

Breytingatillagan verður til kynningar á skrifstofu sveitarfélagsins Ölfuss og er frestur til að gera athugasemdir til 31. mars næstkomandi.