Fyrsti áfangi í stækkun Níunnar tekinn í notkun

Í gær var fyrsti áfangi í stækkun Egilsbrautar 9 tekinn í notkun en fyrirtækið Hrímgrund sá um framkvæmdirnar.  Alls voru 5 íbúðir afhentar nýjum íbúum og þar af 4 í nýbyggingu. Margt var um manninn og létu gestir vel að hinni nýju aðstöðu. Íbúðirnar eru bjartar og rúmgóðar og við hönnun þeirra var horft til þess að íbúar geti haldið heimili með stuðningi svo lengi sem þeir kjósa.

Bæjarstjórn einbeitt
Gestur Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar hélt stutta tölu áður en íbúar fengu afhenta lykla að hinum nýju og glæsilegu íbúðum.  Í ræðu sinni sagði Gestur m.a. núverandi bæjarstjórn hefði einbeittan vilja til að halda áfram að byggja upp og þróa gæða umhverfi fyrir alla íbúa og þá ekki síst eldri borgara. Gestur útskýrði stefnu bæjarstjórnar hvað þessi mál varðar á þennan máta:

Haldið verður áfram að byggja við Níuna
„Í fyrsta lagi, þá er ríkur skilningur á því er snýr að húsnæðismálum.  Þetta skref sem við tökum í dag þegar við tökum í notkun fyrsta áfanga í stækkun Níunnar, er fyrsta skrefið.  Öll hönnun og undirbúningur hefur gert ráð fyrir áframhaldandi stækkun. Hugmyndin er því að halda sem fyrst áfram og vonandi getum við hafið undirbúning næsta áfanga mjög fljótlega, ef til vill strax á næsta ári.  Svo mikið er víst að þörf er á leiguíbúðum sem þessum og við því ætlum við að bregðast.“

Í máli Gests kom fram að verið væri að undirbúa gatnagerð við svokallaða Vetrarbraut en að ábendingar um að lagaleg álitamál væru um lýsingu skipulagsins voru gerðar nauðsynlegar breytingar á skipulaginu. „Þessi breyting er núna í auglýsingu en þegar henni verður lokið verður hægt að auglýsa þær lóðir og stefna okkar er að eldri borgarar njóti forgangs við úthlutun þessara lóða.“

„Verið er að hanna og skipuleggja breytingar á dagþjónustunni hér á Egilsbraut 9. Sú hönnun er leidd af Jóni Stefáni arkitekt sem hannaði einmitt þessar íbúðir sem við tökum í notkun í dag. Með þeirri breytingu stefnum við að því að stórbæta þjónustu dagdvalar og laga hana að þörfum samtímans sagði Gestur“

Að lokum tók hann fram að bæjarstjórn myndi áfram nýta öll tækifæri til að kalla eftir hjúkrunarþjónustu ríkisins hingað í okkar góða bæ. „Með hækkandi aldri eykst eðlilega þörfin á þeirri þjónustu. Þar þarf hins vegar að hafa hugfast að sú þjónusta er ekki sveitarfélagsins að veita heldur ríkisins.“

Athöfnin í gær var glæsileg í alla staði. Auk Gest fór Grétar Ingi Erlendsson með fáein orð sem og Einar Sigurðsson fulltrúi í Öldungaráði. Tónlistaratriði setti einnig fallegan svip á stundina.  Eftir að verktakinn hafði afhent íbúum lykla að sínum nýju heimilum var gestum boðið að skoða aðstöðuna. Hægt er að sjá stutt myndband sem sýnir ma. hinar nýju glæsilegu íbúðir.