Digiqole ad

Markaðstofa Suðurlands afþakkar frítt húsnæði í Ölfusi

 Markaðstofa Suðurlands afþakkar frítt húsnæði í Ölfusi

Bæjarráð Ölfus furðar sig á afstöðu Markaðsstofu Suðurlands sem afþakkar boð bæjarráðs Ölfuss um afnot af fríu húsnæði í eigu Sveitarfélagsins Ölfuss undir starfsemi Markaðstofunnar. Kom þetta fram á fundi bæjarráðs síðastliðinn fimmtudag.

Í nóvember á síðasta ári bauðst bæjarráð Ölfuss að leggja Markaðsstofunni til húsnæði í Sveitarfélaginu Ölfusi þeim að kostnaðarlausu. „Með því vill bæjarráð draga úr rekstrarhalla og sýna að samstarf það sem liggur til grundvallar Markaðstofunni sem og annað sunnlenskt samstarf er heildrænt en ekki háð staðsetningu,“ sagði í fundargerð bæjarráðs frá 19. nóvember 2020.

Í afgreiðslu Markaðsstofunnar kemur fram að hún telji ekki tímabært að þiggja gjaldfrjálst húsnæði í Ölfusi að svo stöddu. Þá segir í nýjustu fundargerð bæjarráðs að ekki séu frekari rök færð fyrir þeirri afstöðu. „Bæjarráð furðar sig á afstöðu Markaðsstofunnar. Boð Sveitarfélagsins Ölfuss hefði losað stofuna undan föstum rekstrarkostnaði og sýnt að Markaðsstofan gæti unnið fyrir allt starfssvæðið, án þess að staðsetning skipti máli.“

Bæjarráð Ölufss óskar eftir röksemdafærslu fyrir afstöðu stjórnar Markaðsstofunnar og ítrekar jafnframt boð sitt um frítt húsnæði í Ölfusi undir starfsemi Markaðsstofu Suðurlands.