Þorlákshafnar Þórsarar eru komnir í undanúrslit Dominos deildar karla í körfubolta eftir stórsigur á nöfnum sínum frá Akureyri fyrr í kvöld. Lokatölur urðu 66-98.
Þórsarar komu feikilega einbeittir til leiks og voru mun sterkari aðilinn í leiknum á meðan ekkert gekk upp hjá Akureyringum sem virtust á köflum hálf stressaðir.
Gaman var að sjá að Þorlákshafnarbúar fjölmenntu á leikinn og var Græni drekinn áberandi í stúkunni.
Callum Lawson var stigahæstur með 22 stig og 8 fráköst. Larry Thomas var mjög góður með 17 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar. Ragnar Örn Bragason skoraði 14 stig og þá var Emil Karel Einarsson með 100% skotnýtingu í leiknum en hann skoraði 11 stig, þar af þrjár þriggja stiga körfur í röð í 4. leikhluta.
Styrmir Snær Þrastarson skoraði 9 stig og tók 10 fráköst og Adomas Drungilas setti 8 stig og tók 10 fráköst í endurkomu sinni eftir þriggja leikja bann.
Davíð Arnar Ágústsson skoraði 7 stig og Halldór Garðar Hermannsson skoraði 6 stig. Ísak Júlíus Perdue og Ingimundur Orri Jóhannsson voru með 2 stig hvor.