Moskvít gefur út plötu

Hér í Þorlákshöfn má finna mikið af einstaklingum sem búa svo sannarlega yfir listrænum hæfileikum. Einn þessara einstaklinga er ungur maður sem heitir Sigurjón Óli Arndal Erlingsson, gengur undir nafninu Sjonni. Um er að ræða tónlistarmann í húð og hár sem hefur verið að semja lög síðan hann var í grunnskóla. Fyrir nokkrum misserum stofnaði hann hljómsveitina Moskvít þar sem hann syngur og spilar á bassa. 

Á morgun, föstudaginn 13. ágúst, mun Moskvít gefa út þemaplötuna Human Error og verður til að mynda hægt að hlusta á plötuna á Spotify. Hljómur plötunar ber keim af vestrænum blús en er einnig vel rokkaður með smá smiti af poppi og hörðu rokki. Ættu því allir léttilega að geta fundið lag að þeirra skapi. Platan er að einhverju leiti “showtoony“ þar sem hún fjallar um persónu sem glýmir við sinn innri djöful, en lögin sem sköpuð voru með mismunandi hugarfari og á mismunandi tímabilum standa þó vel ein og sér.

Mörg lög plötunar einkennast af mikilli spennu og hasar, má þar nefna lagið Tarantino sem er fyrsta lag plötunar og algjörlega tilvalið til þess að hrinda tilfinningaþrungnari sögunni af stað. Það fjallar um að sleppa alveg stjórninni og fljóta með straumnum í stað þess að takast á við vandamálin, þrátt fyrir að vita betur. Aðalpersóna verksins glímir hér við þær hryllilegu hvatir að vilja stráfella fólk en í stað þess að takast á við vandann þá flýr hann sjálfan sig og rökhugsun sína. Hans innri myrkrahöfðingi nær yfirhöndinni og rauði þráðurinn; morðinginn, hans hugsanir og tilfinningar liggur í gegnum plötuna. Þegar komið er að fimmta lagi plötunnar, He‘s coming my way sem á yfirborðinu fjallar um mannaveiðar aðalpersónunnar, má heyra hvernig undirspilið samsvarar textanum á kostulegan hátt sem hálfgerður eltingaleikur þar sem hraðinn magnast er líður á lagið.

Moskvít meðlimir hafa lagt afar mikið í þetta dýrmæta sköpunarverk og hafa allar dyr, tónlistarlega séð, verið opnar. Platan fjallar vissulega um sögu morðingjans og hans raunir eða athafnir en ef við skyggnumst dýpra er þetta í raun um þá ádeilu sem gerist innra með honum þar sem að margar tilfinningar koma við sögu; ást, losti, hatur og eymd.

Aðrir hljómsveitameðlimir eru Alexander Örn trommuleikari, Valgarður Uni spilar á gítar en lætur rödd sína einnig óma, Jón Aron spilar á hljómborð og síðust en ekki síst er það Jóhanna Rut sem leikur á fiðlu. Öll koma þau frá Selfossi og hljómsveitin því sunnlensk. Meðlimir Moskvít eru þekktir fyrir afar snyrtilegan klæðnað. Axlabönd, skyrtur og spariskór eru í hávegum höfð líkt og tískan var árið 1920 sem bætir og kætir enn frekar upplifun þeirra sem mæta á tónleika.

Lög sveitarinnar hafa verið spiluð í útvarpinu, meðal ananrs á Rás 2 en einnig má finna þau á Spotify og á Youtube ásamt tónlistarmynböndum. Moskvít hefur spilað hér og þar á höfuðborgarsvæðinu og á suðurlandinu en þegar platan hefur verið gefin út verða haldnir útgáfutónleikar með pompi og prakt og verða þeir auglýstir síðar. Moskvít mun koma til með að spila á 70 ára afmælishátíð Þorlákshafnar og verður það einnig auglýst síðar.