Fjarvinnustofan í bankanum er dæmi um það þegar vandamáli er snúið í verkefni

Fyrr í vikunni sögðu Hafnarfréttir frá því að Sveitarfélagið Ölfus, Landsbankinn og Þekkingarsetrið Ölfus Cluster væru nú í sameiningu að vinna að opnun skrifstofuhótels og fjarvinnustofu í Þorlákshöfn.  Þar kom fram að stefnt væri að því að opna vinnustofuna 1. nóvember nk. í því húsnæði sem bankinn hefur nýtt seinustu ár undir útibú sitt.  Samhliða myndi Landsbankinn aðlaga starfsemi sína í Þorlákshöfn að nýjum kröfum í aðliggjandi rými sem að hluta til hefur hýst Ölfus Cluster og afgreiðslu bóksafnsins.

Veigamikið atriði að tryggja áfram bankaþjónustu
Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að þetta hafi átt sér nokkurn aðdraganda.  „Við þekkjum náttúrulega öll hvernig bankaþjónusta hefur verið að breytast og hversu mjög útibúum bankanna hefur fækkað.  Nú seinast var til dæmis seinasta útibúinu í Hveragerði lokað.  Við höfðum því áhyggjur af því að sömu örlög myndu bíða okkar enda vitum við vel að núverandi húsnæði bankans er alltof stórt og óhagkvæmt fyrir nútíma þjónustuumhverfi.  Við nálguðumst því Landsbankann með þessa hugmynd og þeim til hróss þá var henni vægast sagt vel tekið.  Nú hafa samningar náðst sem merkir að banka þjónusta er tryggð, þjónustustig samfélagsins eykst með tilkomu vinnustofunnar og atvinnulífið fær aukna þjónustu með skrifstofuhóteli.“ 

Hröð uppbygging
Eins og Hafnafréttir hafa sagt frá þá er vöxtur samfélagsins í Ölfusi hraður.  Fjölgunin fyrstu 6 mánuði ársins nemur 4,3% og ekkert lát þar á. Fjöldi íbúa nálgast nú að verða 2500.  Elliði segir að stór hluti sem velur sér framtíðarbúsetu hér sé að leita að nánu- og rólegusamfélagi með hátt þjónustustig og hagstætt húsnæði.  „Covid hefur síðan hraðað mjög þeirri þróun að fólk geti sinnt vinnu sinni án þess að ferðast til og frá vinnustað á hverjum degi og margir sem hér búa starfa í þannig umhverfi.  Það er því ánægjulegt að geta þróað samfélagið í takt við þessar nýju áherslur með því að bjóða upp á skrifstofuhótel og fjarvinnuver í samstarfi við Landsbankann.“

Bóksafnið verður áfram ein af stoðum menningarlífsins
Aðspurður segir Elliði að í raun snúist þetta frekar um að nýta húsnæðið betur en að verið sé að þrengja að bókasafninu.  „Hönnuður breytinganna lagði upp með að bóksafnið væri í raun kjarnastarfsemi á jarðhæð hússins og gætti þess vel að samfara þróun húsnæðis yrði leiða leitað til að bæta auka en þjónustu þess.  Þannig erum við til að mynda að skoða það að sameina afgreiðslu stjórnsýslunnar og bóksafnsins og lengja þar með opnunartíma þess.  Þá væri gaman að halda áfram með og efla enn frekar það framboð sem hefur verið sýningum í hinum sérstaka sýningarsal „Undir stiganum“.  Elliði bætir því svo við hann sé afar þakklátur fyrir hversu vel fólk taki þessum breytingum: „Þegar vel tekst til og fólk stendur saman þá er nefnilega oftast hægt að snúa ógnunum í tækifæri.  Það vandamál sem við sáum í mögulegu brotthvarfi bankaþjónustu héðan úr okkar góða bæ er núna með samstarfi margra að skila sér í vexti og nýjum tækifærum.  Það er þá til einhvers róið.“