Hlutfall eldri borgara lækkar í Ölfusi en hækkar víðast hvar

Elliði Vignisson bæjarstjóri byrti í morgun áhugaverða stöðufærslu á Facebook þar sem hann sýnir þróun í hlutfalli eldri borgara í nokkrum sveitarfélögum. Þar kemur fram að hlutfall eldri borgara í Sveitarfélaginu Ölfusi fari lækkandi sem hann segir til komið vegna ásóknar barnafjölskyldna í búsetu í sveitarfélaginu og þá sérstaklega í Þorlákshöfn.

Í stöðufærslunni kemur fram að hlutfall eldri borgara er mjög ólíkt á milli sveitarfélaga. Þannig eru til dæmis 20,8% íbúa í Fjallabyggð eldri borgarar, 18,4% í Hveragerði og 15,1% í Vestmannaeyjum. Í Ölfusi er þetta hlutfall hinsvegar 10,5% og fer lækkandi. Landsmeðaltalið er 10,5%.

Í samtali við Hafnarfréttir segir Elliði að vissulega sé þetta jákvætt. „Bæjaryfirvöld hér hafa lagt áherslu á að byggja upp samfélag með metnað fyrir þjónustu við alla aldurshópa. Sérstök alúð hefur verið lögð við barnafólk. Við sjáum þess merki til að mynda í því hversu veglegur og faglegur grunnskólinn okkar er, hversu gott starf er unnið á Bergheimum, flott félagsstarf unglinga og einstakt íþróttalíf. Þetta í bland við hagstætt húsnæðisverð er aðlaðandi fyrir ungt fólk.“

Íbúum hefur nú fjölgað stöðugt síðustu ár og Elliði segir að í því felist áskoranir. „Við erum ekki lent undir skriðunni og ætlum ekki að lenda undir henni. Það er afar mikilvægt að láta innviði stækka með fjölgun íbúa. Þótt hlutfall barna og yngra fólks sé hátt hjá okkur þá má ekki gleyma því að eldri borgurum fjölgar einnig. Við erum nýbúin að byggja og taka í notkun leiguíbúðir fyrir aldraða og boðanna verður ekki beðið með næsta áfanga sem eru úrbætur í dagþjónustu. Metnaðurinn er að þjónusta alla aldurshópa og það auðveldar það verk hversu mikill slagkraftur liggur í lágum meðalaldri.“