„Lífið væri létt ef fleiri væru eins og þessi meistari“

Fyrr í vikunni fékk Dagný Magnúsdóttir eftirminnilega heimsókn á heimili sitt í Þorlákshöfn. Þar var mættur Guðmundur Felix Grétarsson og eiginkona hans Sylwia Grétarsson en í dag eru tíu ár síðan Dagný tók ákvörðun um að leggja sitt af mörkum til söfnunarinnar sem hrint hafði verið af stað svo Guðmundi Felix yrði gert það kleift að setja hendur sínar í sand. En draumur hans eftir alvarlegt slys sem hann varð fyrir árið 1998 olli því að hann missti báðar hendur sínar. Núna tíu árum seinna er draumur Guðmundar Felix orðinn að veruleika og vildi hann þakka Dagnýju fyrir þann stóra þátt sem hún átti þessu kraftaverki.

Hafnarfréttir fengu Dagnýju til að segja lesendum frá því hvernig þetta kom allt til og viljum við gefa Dagnýju orðið:

„Við hjónin urðu þeirra gæfu njótandi í vikunni að fá Guðmund Felix og hans yndislegu eiginkonu Sylwiu í heimsókn. Ég varð svo klökk að sjá með berum augum meistaraverkið sem unnið hefur verið á Guðmundi Felix. Ekki aðeins af þessu frábæra læknateimi sem vann að handaágræðslunni, heldur líka honum sjálfum að hafa aldrei gefið upp vonina og mætt fleiri hindrunum í lífinu en flest okkar.

Það var í október árið 2011 að ég sá viðtal við Guðmund Felix í sjónvarpinu í tilefni af því að söfnun væri hafin undir yfirskriftinni „Hendur í sandinn“. Guðmundur Felix hefði ég einu sinni hitt en þekkti ekki að öðru leyti.

Hann bræddi hjarta mitt frá þessari stundu því fyrir mér gæti fátt jafn hræðilegt gerst eins og að missa hendurnar mínar.

Ég var nýlega búin að opna glervinnustofuna mína Hendur í höfn og til að gera langa sögu stutta þá fór hausinn á mér á flug og ég hugsaði bara hvað ég gæti lagt á vogaskálarnar til þessarar söfnunar. Peningana átti ég ekki til að gefa en hendur átti ég þokkalega vel virkar. Mér fannst svo liggja beint við að ég myndi skapa hluti úr gleri sem hægt væri að selja og gefa allan ágóðann í söfnunina. Því gler er jú gert úr sandi og því auðvelt að brenna sand milli glersins og nóg er af honum í fjörunni okkar, svo það var vel við hæfi.

Ég hentist á vinnustofnuna mína strax þetta kvöld og eyddi þar nóttinni í teikningar og þróun á skálinni góðu. Daginn eftir fann ég svo símanúmerið hjá Guðmundi Felix og lagði hugmyndina undir hann og hvort hann væri því samþykkur að ég færi í þetta verkefni og þá hvernig það virkaði. Nokkrum dögum síðar leit fyrsta skálin dagsins ljós. Ég hentist með hana í bæinn og hitti þennan lífsglaða og skemmtilega mann sem leist vel á gripinn. Þá var bara að vinda sér í framleiðsluna og draga fleiri með sér í verkefnið. Eins þurftum við að finna út hvernig að sölunni væri staðið og sækja um leyfi fyrir verkefninu.

Ég heimsótti þau fyrirtæki sem ég verslaði að mestu við, tengdri minni starfsemi og kynnti verkefnið fyrir þeim. Glerið allt verslaði ég hjá Íspan og voru þeir sannarlega til í að taka þátt. Spírall gaf okkur fyrstu 100 kassana, Grænn markaður bréfpokana og SB skiltagerð gaf sitt ekki eftir og prentuðu utan á alla kassana og gerðu kynningarborða fyrir okkur.

Því næst hafði ég samband við framkvæmdastjóra Smáralindar og sagði frá verkefninu. Hvort möguleiki væri að fá að vera hjá þeim á áberandi stað fyrstu helgina í desember og kynna söfnunina og selja skálina. Var mér tjáð að ekki væri leyfi fyrir sölu nema hjá viðurkenndum verslunum í Smáralind en honum fannst þetta svo frábært framtak að við fengum leyfi um hæl. Ég byrjaði framleiðslu á fullu en hver og ein skál er einstök þar sem engar tvær eru eins. Mikilvægt fannst mér að hafa hægri og vinstri hendi þar sem Guðmundur Felix ætlaði sko að fá báðar hendurnar.

Þegar kom að laugardeginum 4. desember voru um 180 skálar komnar í kassa og nokkrar stærri, sem voru falar með frjálsum framlögum. Við fengum svo til liðs við okkur í söluna dásamlegu móður Guðmundar Felix, Guðlaugu og Guðnýju systur mína. Við vissum ekki hvað við vorum að fara út í en full bjartsýni um að skálarnar færu nú að mestu þessa helgi og ættum þá vonandi eitthvað eftir ef meiri eftirspurn yrði þegar nálgaðist jólin. Það er skemmst frá því að segja að seinnipart þessa laugardags voru skálarnar búnar og á annað hundrað pantaðar.

Ég var því í framleiðslu dag og nótt fram að áramótum og keyrðum við hjónin svo skálarnar heim til fólks og gjafabréf fyrir þá sem ekki gátu fengið sína skál fyrir jól. Alls urðu skálarnar 400 talsins.

Ég gæti skrifað heila ritgerð um kosti Guðmundar Felix, því annan eins húmorista og gleðipinna hef ég aldrei hitt. Að gefast ekki upp er ekki til í hans orðabók og mættum við mörg taka okkur hann til fyrirmyndar. Sagan hans í dag er ekki fullskrifuð, þar sem langt og strangt uppbyggingarferli er framundan. En hann marsterar það eins og allt annað sem hann tekur sér fyrir HENDUR ásamt stoð sinni og styttu henni Sylwiu. Lífið væri létt ef fleiri væru eins og þessi meistari. Að gefast ekki upp þótt móti blási og trúa á drauminn sinn. Hann er svo sannarlega fyrirmynd mín.

Þroskasaga Guðmundar Felix, 11.000 volt kom út núna fyrir jólin og er stórkostleg saga um vegferð þessa dásamlega manns. Bókin er skrifuð af Erlu Hlynsdóttur og er einstaklega falleg og vel skrifuð. Holl og góð lesning fyrir okkur öll.“