Árið 2021 var sérlega hagstætt Golfklúbbi Þorlákshafnar. Metaðsókn var á golfvöllinn, breyttur golfvöllur hefur fengið mikið lof, félögum fjölgaði mikið og hagnaður klúbbsins hefur aldrei verið meiri. Þetta kom fram á aðalfundi golfklúbbsins sem haldinn var fyrir skömmu.
Metaðsókn var á golfvöllinn síðasta sumar og voru leiknir 14.318 golfhringir en til samanburðar voru þeir fyrir fimm árum 4.016. Það hefur því orðið algjör sprenging í aðsókn á örfáum árum. “Þessa gríðarlega fjölgun er ekki síst tilkomin vegna þess að hægt er að leika á golfvellinum nánast allt árið um kring. Þessi aukna aðsókn má eflaust einnig rekja til þeirra nýframkvæmda á vellinum sem hefur verið unnið í á síðustu árum sem gerir það að verkum að völlurinn er alltaf að verða betri og betri.“
Rúmlega 32% fjölgun á félögum
Skráðir félagar í Golfklúbbi Þorlákshafnar eru 627 talsins og fjölgaði þeim um rúmlega 32% á síðasta ári. Skipting félaga er þannig að 396 eru fullgildir félagar og 231 er með svokallaða aukaaðild, en það eru félagar sem eru einnig skráðir í aðra golfklúbba. Flestir þeirra sem eru með aukaaðild koma af höfuðborgarsvæðinu og leika á Þorlákshafnarvelli á meðan golfvellir þeirra eru lokaðir.
Bæði barna- og unglingastarf golfklúbbsins gekk vel síðasta sumar. Talsverður fjöldi barna og unglinga reyndi fyrir sér í golfi og skipt var í hópa eftir árgöngum. Þá hélt klúbburinn fjölmennt leikjanámskeið. Þá var kvennastarfið einnig í miklum blóma og er konum að fjölga í klúbbnum.
Brotið var blað í sögu mótahalds hjá klúbbnum síðasta sumar þegar Íslandsmótið í holukeppni var haldið á vellinum með tilheyrandi fjölmiðlaumfjöllun. Þetta var fyrsta mótið af þessari stærðargráðu sem haldið hefur verið á vellinum.
Golfskálinn barn síns tíma
Í fundargerðinni segir að það sé að mörgu að huga varðandi breytingar og uppbyggingu golfvallarins. „Golfskálinn er orðinn barns síns tíma sem dæmi. Kröfur varðandi þjónustu á golfvöllum eru alltaf að aukast, aðstaða í golfskálanum er ekki í takt við þessar kröfur. Í þeim efnum er nauðsynlegt að horfa til framtíðar, taka mið af þeirri þróun sem er í golfi, aðstöðu fyrir kylfinga, þróun í heimsóknum erlendra kylfinga og ýmsum fleiri þáttum.“
Fjárhagsleg afkoma á árinu var góð, en alls varð rúmlega 7,6 milljón króna hagnaður af rekstri klúbbsins.
Guðmundur Baldursson var endurkjörinn formaður klúbbsins, en aðrir með honum í stjórn eru Ingvar Jónsson, Magnús Joachim Guðmundsson, Magnús Ingvason og Þórunn Jónsdóttir. Í varastjórn var Ásta Júlía Jónsdóttir endurkjörin og nýr í stjórn er Gústaf Ingvi Tryggvason.