Miklar framkvæmdir á sviði fræðslumála

Á næstu vikum mun opna ný viðbót við Bergheima þar sem nú er að rísa aðstaða sem getur þjónustað allt að 20 börn. „Til viðbótar við þessa stækkun stefnum við ótrauð að því að byggja einnig nýjan leikskóla og höfum eyrnamerkt 900 milljónum til þeirrar framkvæmdar á næstu tveimur árum, auk fjármagns til þess að hefja hönnun að stækkun grunnskólans. Er þetta allt liður í því að tryggja áfram úrvalsþjónustu sem sveitarfélagið vill vera þekkt fyrir“ sagði Grétar Ingi í samtali við Hafnarfréttir.

Vaxandi samfélagi fylgja framkvæmdir en íbúafjölgun á seinasta ári var um 5% í sveitarfélaginu. Fjölgunin var þó ekki einungis í Þorlákshöfn þar sem dreifbýlið hefur einnig styrkst mikið. Til að þjónusta dreifbýlið á sviði fræðslumála hefur sveitarfélagið verið í miklu samstarfi við Hveragerðisbæ. Þannig eru bæði grunn- og leikskólar í Hveragerði ekki eingöngu í samrekstri þessara sveitarfélaga heldur er Ölfus beinn eignaraðili að mannvirkjunum auk þess að greiða hluta rekstrar á móti Hveragerðisbæ, í samræmi við nemendafjölda.

Grétar Ingi segir í samtali við Hafnarfréttir að samstarfið hafi verið mjög farsælt. „Við búum við þá sérstöðu hér í okkar stóra sveitarfélagi að inni í því miðju erum við með annað sveitarfélag. Það er mikilvægt fyrir okkur að nýta okkur þá sérstöðu sem styrk og það tel ég að sé að takast mjög vel. Með það fyrir augum hefur sú leið verið farin að veita dreifbýlinu mikilvæga þjónustu í samstarfi við Hveragerðisbæ og ná þar bæði faglegum og fjárhagslegum samlegðaráhrifum. Sveitarfélagið Ölfus á til að mynda 14% í grunnskólanum og 9% í leikskólanum.“

Á seinustu árum hefur nokkuð verið framkvæmt við skólamannvirki í Hveragerði bæði við grunn- og leikskóla. „Við höfum sannarlega verið í framkvæmdum innan þess samstarfs. Í dag er eignarhluti okkar í þessum mannvirkjum í Hveragerði sennilega um 180 milljónir og ljóst að sá eignarhluti mun vaxa á næstu árum.“ segir Grétar Ingi.