Íslandsmeistarar Þórs þurftu heldur betur að hafa fyrir sigrinum gegn nöfnum sínum frá Akureyri þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla í körfubolta á Akureyri í kvöld.

Akureyringar, sem eru búnir að senda þrjá erlenda leikmenn sína heim, gáfu Íslandsmeisturunum hörku leik í kvöld og var jafnræði með liðunum allan leikinn en staðan eftir þriðja leikhluta var til að mynda 70-70.

Sama var uppi á teningnum í fjórða leikhluta en Þorlákshafnardrengirnir voru þó alltaf skrefinu á undan og var munurinn oftast um og yfir 6 stig og fór það svo að Íslandsmeistararnir unnu að lokum 88-95.

Langflestir leikmenn Íslandsmeistara Þórs hafa átt betri daga og áttu þeir í miklum erfiðleikum sóknar- og varnarlega gegn áköfum heimamönnum sem gáfu ekkert eftir allan leikinn.

Luciano Massarelli var stigahæstur Þórsara með 27 stig, Glynn Watson setti 18, Davíð Arnar og Daniel Mortensen skoruðu 11 stig hvor. Kyle Johnson skoraði 9 stig og tók 12 fráköst. Ronaldas Rutkauskas bætti við 8 stigum og Ragnar Örn 7. Emil Karel og Ísak Júlíus skoruðu báðir 2 stig.